13.04.1943
Efri deild: 98. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. — Mér virðast umr. tefjast nokkuð meira en ástæða virðist vera til, og skal ég verða við þeirri ósk hæstv. forseta að takmarka mál mitt svo sem mögulegt er. En um leið og ég segi þetta, vil ég leiða athygli hæstv. forseta að því, að mig ber í raun og veru að skoða sem frsm. minni hlutans í þessu máli.

Hv. þm. Str. tók af mér ómakið að miklu leyti, því að hann benti á ýmislegt í sambandi við þetta mál, sem ég hefði einnig viljað láta koma hér fram við umr. málsins. — Þó þykir mér rétt að gera eina aths. við ræðu hans, þar sem hann hélt því fram eða gekk að því sem vísu, að brtt. hv. meiri hl. fjhn. við frv. yrðu samþ. — Ég er alls ekki eins viss um að svo verði, þó að ég verði að játa, að ég hef allmikið linast í þeirri trú við að hlusta á ræðu hv. 5. landsk.

Skal ég þá víkja nokkuð að hv. 3. landsk. Ræða hans bar vott um, að það var fulltrúi Alþfl., sem var að tala. Afstaða hans var lík því, sem Alþfl. er vanur að taka til málanna. — Hann lýsti því yfir þessi hv. 3. landsk. þm., að hann væri ekki á móti 7. gr., heldur með henni, en ekki með henni í þessu frv., því að hún ætti heima í skattal. — Ég hafði sjálfur raunar látið í ljós álit mitt á því, að þessi gr. ætti betur heima í skattal. en í frv. þessu, enda mundi hún ekki vera látin standa lengi í frv. þessu, ef að l. verður, heldur samræmd þeim stað, er hún á betur heima. — En þetta út af fyrir sig afsakar ekki það að fella gr. burtu, og því grunar mig, að afstaða hv. 3. landsk. sé aðeins fyrirsláttur, að hann vilji ekkert við gr. gera, enda er þessi framkoma hans lík og sú, sem flokkur hans hefur alltaf, er hann sér sér færi á að skjóta sér með undanbrögðum undan öllu, sem máli skiptir, með því að finna eitthvað forminu til foráttu. —

Þá talaði hv. þm. um það, að það, sem eftir yrði af frv., mundi verða gagnlegt til að hafa áhrif á verð landbúnaðarafurða á næsta hausti. — Þetta mun rétt vera, og jafnvel þó að samkomulag náist ekki, og er það rétt að því leyti til, að verð landbúnaðarafurða verður þó alltaf lækkað með framlagi úr ríkissjóði. Það má mikið vera, ef refirnir eru ekki til þess skornir hjá þeim, ef þeir ætla að vera með þessum leifum, sem eftir eru af frv., að þeir vonist til þess, að þetta geti orðið. En það er ekki alveg víst, eins og viðskipti manna eru orðin fjölþætt nú, nema bændur hafi lært eitthvað af verkalýðsforingjunum, ef ætti að beita þá kúgun í þessum efnum. Þessi hv. þm. sagði, að það væri vonlaust, að hægt væri að afgreiða verðlagsmálin samtímis skattaálagningu á stríðsgróðann. Mér hefur hingað til heyrzt kveða nokkuð við annan tón frá flokki þessa hv. þm. og frá Alþýðublaðinu, en það hefur sífellt klifað á því, að einmitt þetta þyrfti að afgreiða saman. Nei, nú er ómögulegt að afgreiða þetta saman, og skattamálin eiga því að bíða til næsta þings, og ætli að það bíði ekki lengur, að gerðar verði nokkrar ráðstafanir gegn stríðsgróðanum, sem þeir kalla svo?

Ég læt þetta nægja til þessa hv. þm., enda sé ég ekki ástæðu til þess að svara honum orði til orðs. Hv. þm. Barð. hafði það eftir mér, að ég hefði sagt, að 7. gr. frv. væri ekki skerðing á rétti útgerðarfyrirtækja. Þetta er ekki alveg rétt hermt. Ég sagði, að það væri ekki skerðing á rétti flestra útgerðarfyrirtækja, þ.e.a.s. ekki nema hinna allra stærstu, og ég endurtek það, að 7. gr. frv. er ekki skerðing á rétti flestra útgerðarfyrirtækja, og hún er jafnvel til hagsbóta fyrir mörg þeirra. Að öðru leyti þarf ég ekki að svara hv. þm. Barð., enda veik hann ekki að öðru í ræðu minni, og ég er, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, fúsari til þess að fylgja brtt. hans en till fjhn., því að þær eru virkilega róttækar till. til þess að lækka dýrtíðina, og mér finnst, að frekar ætti að ræða um þær sem samkomulagsgrundvöll, ef nokkur tími væri til, en svo er nú ekki, eins og hv. þm. er líka ljóst, þar sem hann hefur tekið flestar þeirra aftur, og þýðir því ekki, eins og sakir standa, að ræða nú frekar um þetta efni.

Ég veit ekki, að hve miklu leyti ég á að svara hv. 5. þm. Reykv., en hjá honum kenndi margra grasa, og sanngirnin var ekki efst á baugi hjá honum frekar en venjulega. Mér skildist á honum, að höfuðmein dýrtíðarinnar væri það, að afurðasölumálum bænda hefði verið stefnt í öngþveiti. Ég hygg, að órækar sannanir liggi fyrir um það, að bændur hafi ekki fengið afurðir sinar og þar með kaup sitt hækkað meira heldur en í hlutfalli við verkamenn og jafnvel tæplega það. — Hann talaði um 1. gr. frv. og taldi það kost á frv., sem að vísu er rétt, að skattarnir væru ekki lagðir nema á háar tekjur og miðlungstekjur, en ekki á lágtekjurnar. En það er nú þó svo, að samkv. þessu frv. er enginn skattur lagður á hæstu tekjurnar, því að skatturinn á hæstu tekjunum endar í núlli. (PM: Hvað er búið að taka mikið af þeim áður?). En í frv. var annar skattur á þessar hæstu tekjur, sem þessi hv. þm. virðist hafa verið samþykkur, að væri felldur niður. Ég er þó ekki svo mjög að fást um það, en ég er með þessu að benda á samkvæmnina hjá þessum hv. þm.

Hann kvaðst frekar hafa kosið, að 7. gr. stæði áfram í frv., og sagðist vona, að samkomulag næðist um hana, svo að hann virðist eiga von á því, að hún verði sett inn aftur. Mig furðar heldur ekki svo mjög á því, þar sem hún er komin frá hans eigin flokksmönnum, en mig furðar meira á því, að hans flokksmenn hér í d. skuli vera með því að fella hana niður. Það er ekki annað að sjá en flokkur hans hafi fengið iðrun mikla þegar „Mogginn“ fékk kastið hér á dögunum. Það hafa heyrzt loforð um það frá flokki þessa hv. þm., að hann skuli taka peningana, þar sem þeir séu til. Ég skal játa, að flokkur hans hefur enn ekki haft tækifæri til þess að framkvæma stefnuskrá sína, en nú hafði hann tækifæri til þess að stuðla að því, að allmikil skattahlunnindi væru tekin af þeim, sem betur mega í þjóðfélaginu, og þá bregzt hann. Það er erfitt að segja, hvort þetta sé fyrirboði þess, sem komu skal, ef hann skyldi fá meiri völd í þjóðfélaginu.

Ég varpaði fram þeirri spurningu til hæstv. fors. þessarar deildar, hvort ætti að skilja afstöðu hans svo, að flokksmenn hans í Nd., sem settu 7. gr. inn í frv., ætluðu að vera með því að fella hana niður aftur. Hæstv. forseti hefur enn ekki svarað þessu, enda á hann óþægilegt með að svara, meðan hann situr í forsetastóli, en þess þarf heldur ekki, því að það var ekki hægt að skilja annað á flokksmanni hans, hv. 5. þm. Reykv., sem er formaður flokksins, en að hans flokkur ætlaði að éta ofan í sig allt það, sem hann sagði og gerði í Nd. og það, sem hann hefur sagt í þessu máli. Það var hans svar. Hann sagði, að það, sem hefði staðið í vegi fyrir lausn þessa máls, hefði verið það, að ómögulegt hefði verið að fá samkomulag við Framsfl. um það. Það er hægt að fara að eins og strákar, sem hafa verið að fljúgast á og kenna svo hver öðrum og segja hver við annan: „Þú byrjaðir“, „nei, þú byrjaðir.“ Ég ætla nú ekki að fara út í það, en það var hægt að fá samkomulag við Framsfl, um það að samþ. þetta frv. óbreytt, eins og það var lagt fyrir Ed. Með því var ekkert gengið á rétt verkamanna, þar sem ekkert mátti hrófla við kjörum þeirra nema samþykki þeirra sjálfra kæmi til.

Hann sagði af sinni alkunnu sannleiksást, að það væri fyrst og fremst krafa Framsfl., að kaupið væri lækkað. Þetta er varla svaravert. Það er vitað, að meðan dýrtíðin var ekki nærri eins mikil og hún er nú, þá gerði Framsfl. alvarlegar tilraunir til þess að stöðva hana með aðstoð löggjafarvaldsins, ekki lækka hana, heldur stöðva hana. Þessi hv. þm. var að vita hv. þm. Str. fyrir gerðardóminn svo nefnda. Hv. þm. Str. getur svarað fyrir sig, en ég minnist þess, að í gerðardómslögunum voru ákvæði um það, að verð á innlendum afurðum mætti ekki hækka frekar en kaupið, og ég veit ekki til þess, að Framsfl. hafi nokkru sinni lagt til, að kaupið yrði lækkað, nema annað væri lækkað á móti. Búnaðarþingið er ekki fulltrúasamkoma Framsfl., en það er fulltrúaþing bænda, og það gerði till. um það að lækka jöfnum höndum kaupgjald og afurðaverð. Ég er óánægður með, að þessu frv. skuli vera breytt, bæði vegna þess, að ég óttast um það, ef því verður breytt, en þó er sá ótti minni eftir að hafa heyrt ummæli formanns Sósfl. og hv. 3. landsk., sem er háttsettur maður hjá Alþfl., því að ég hygg, að þau gefi í skyn, að samkomulag hafi náðst við Sjálfstfl. um að frv. skuli verða samþ., og ég er óánægður með, ef það, sem ég tel mikið atriði, að ná samkomulagi við eina fjölmennustu stétt landsins, sem segir í 3. gr., verður fellt niður. En þótt nokkrar óánægju gæti hjá mér yfir því að fá ekki frv. samþ. óbreytt, þá er ég þó ánægður með, að það skuli hafa komið í ljós, hvað þessir tveir vinstri flokkar vilja gera, þegar á hólminn er komið, þótt þeir tali hátt á fundum og skrifi mikið í blöð sin um það að þeir vilji taka fjármuni af þeim ríku. Slík heilindi hafa áður komið fram hjá Alþfl., en það er gott, að Sósfl. skuli einnig vera búinn að opinbera sitt sanna innræti.