13.04.1943
Efri deild: 98. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í B-deild Alþingistíðinda. (1022)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Brynjólfur Bjarnason:

Mér finnst þessar umr. orðnar óþarflega langar. Fram hafa komið dálítið einkennilegar skoðanir, sem hv. þm. Str. hefur aðallega verið formælandi fyrir. Hann hefur haldið því fram, að því er mér virðist sem einhverri meginkenningu, að skattar væru ákaflega nauðsynlegir út af fyrir sig, án tillits til þess, hvernig það fé er notað, sem fæst með sköttunum, — minnstu skipti, þótt því væri kastað í sjóinn eða seðlarnir brenndir í eldi. Það væri þjóðþrifamál, taldi hann, að leggja skattana á, þótt óvíst væri, til hvers það fé yrði notað. Sósfl. er með því að leggja þunga skatta á hátekjur og stríðsgróða og nota féð til hagsmuna fyrir meiri hluta þjóðfélagsins, en hann vill engan skatt í tilgangsleysi eða vegna skattsins sjálfs. Hann kærir sig ekkert um, að ríkisstj., sem hann treystir ekki, ráði því fé og noti það t.d. í pólitískar mútur og brask, eins og dæmi eru til, né til þess að kaupa vopn, sem nota megi í stéttabaráttu. Sósfl. hefur engan áhuga á þessu. Ég nefni vopn, af því að í hlut á fyrrv. forsrh. (HermJ), sem hefur notað fé til að kaupa vopn, og honum mun auðvitað þykja sómi að því frá sínu sjónarmiði að hafa gert það. Hann var að tala hér áðan um góða verzlun, sem stríðsgróðamennirnir hefðu gert, og þeir mundu alltaf vera til í slíka verzlun, að láta af hendi svo og svo margar millj., t.d. 10 millj., skildist manni, fyrir að sleppa við 1–3 millj. skattgreiðslur. Hann ætti að þekkja bezt sjálfur góðu boðin stríðsgróðamannanna. Vissulega er þá gott að verzla við þá og fá margar millj. fyrir hverja eina, ef til vill 10 millj. fyrir tvær. Hví skyldi maður ekki þiggja það? Hér er að ræða um peninga, sem teknir verða með sköttum. Sósfl. mundi aldrei fallast á, að þeir yrðu teknir með tollum. Það er auðskilið reikningsdæmi að bera saman frv. eins og það kemur frá Nd. og till. n. Samkv. frv. má gera ráð fyrir, að rösk millj. renni til alþýðutrygginga og ekki meira. Annað, sem inn kæmi af sköttum samkv. frv., er í óvissu, hvernig notað yrði, það er mest á valdi ríkisstj. Satt að segja treysti ég litið á nytsemi þess fjár, sem þannig er óráðstafað. Það mætti nota það til uppbóta, sem frá sjónarmiði okkar flokks er e.t.v. ekkert sérstaklega eftirsóknarverð notkun, og enn fleiri leiðir eru til að misnota það fé. Samkv. samkomulagi meiri hl. n. renna hins vegar 3 millj. kr. til alþýðutrygginga algerlega skilyrðislaust, og þannig hafa unnizt til þeirra 2 millj. kr. Getur hv. þm. Str. ekki skilið þetta?

Þm. segir: „Það er ekkert að óttast, það fást nógir peningar til alþýðutrygginga, a.m.k. skal ekki standa á Framsfl. að veita þá.“ — Þó að ekkert annað hefði hafzt upp úr till. n. en þessi yfirlýsing um vilja Framsfl., væri ekki til einskis barizt. Hálfan annan mánuð höfum við staðið í samningum við Framsfl. um framlög til alþýðutrygginga og ekkert samkomulag fengizt. En í dag er allt falt ! Er það ekki árangur? Skilur þm. þetta?

Ég hygg á hinn bóginn, að ekki sé sleppt færinu til að skatta hátekjur, þótt þessi háttur sé hafður á afgr. frv., vegna þess að það er margskjalfest yfirlýsing 3 flokka þingsins, að breyta Skuli skattal. í þá átt. Ég veit ekki annað en þessir 3 fl. séu um þetta sammála og um, að leggja eigi á háan eignaraukaskatt, enn fremur skuli dregið mjög úr skattfrelsi varasjóða, en hækkuð framlög til nýbyggingarsjóða og sett takmörk fyrir því, hve miklu einstök félög geti safnað í sjóðina, og ráðstafanir gerðar til að fyrirbyggja, að félögin geti misnotað sjóðina eða látið þá renna út í sandinn. Svo framarlega sem Framsfl. skerst þarna ekki úr leik, er tryggt, að þingið setur hin nýju skattalög við fyrsta tækifæri. Annars eru núgildandi skattal. sett af Framsfl. í samvinnu við aðra fl., og þá var Framsfl., eins og hv. 3. landsk. benti á, eindreginn móti því, að haggað yrði við því ákvæði l., sem leyfði tapfrádrátt, því að þá hefði verið allt of nærri gengið þeim fyrirtækjum, sem hlut áttu að máli. Þm. segir nú, að fyrirtækin standi miklu betur að vígi en þá, og ef dýrtiðin lækki, sé óhætt að leggja á þau því meiri skatta. Hvernig getur hann haldið því fram? Vísitalan var miklu lægri þá en líkur eru til, að hún geti orðið á næstunni, og gróði þessara félaga var þá miklu meiri en hann er nú, svo að þetta segir hann alveg út í bláinn. Ég er sammála honum um, að fyrirtækin þoli hærri skatta, en þau hefðu þolað þá enn betur þá en nú. Ef skattal. hefðu verið betur úr garði ger, hefði það þýtt um tíma margfaldan skatt í ríkissjóð við þann aukna skatt, sem nú er hægt að gera ráð fyrir. Þá var þm. móti því að taka hann, núna með því. Hvernig stendur á hugarfarsbreytingu þessa þm.? Ég veit það vel. Það var nefnilega svoleiðis, að hann var í þjónustu þessara afla, sem hann svo fagurlega kallar stríðsgróðavald. Hann barðist með þeim, þegar sett voru gerðardómslög (HermJ: Það er þá skipt um hlutverk núna.). Þá voru það góð öfl og máttarstólpar þjóðfélagsins, sem hann þjónaði. En nú er búið að reka hann úr þjónustunni, og hann er svona afskaplega móðgaður yfir því, þarf að hefna sin fyrir það. En við getum ekki séð þar ástæðu til að leggja á skatta og það bara til þess að henda þeim í einhverja vitleysu.

Hv. þm. Str. spurði um það, hvort Sósfl. og Alþfl. vildu ganga að því samkomulagi, að 7. gr. verði látin halda sér í frv. og allt fé, sem inn kæmi vegna þeirrar gr., yrði látið ganga til alþýðutrygginganna. Þetta er glæsilegt tilboð, en ég get upplýst hv. þm. um það, að þetta tilboð kemur ekki heilum sólarhring of seint. Honum hefur staðið allt þetta til boða til dagsins í dag. Nú hefur Alþfl. gefið það svar, að þetta sé of seint fram borið, því að flokkurinn er búinn að gera annað samkomulag. Það er ekki heldur hægt fyrir sósíalista, því að þeir hafa ekki til þess meiri hluta ásamt Framsókn, enda þurfa þeir ekki lengur á þessu höfðinglega tilboði að halda. Það var ekki fram borið fyrr en þeir þurftu ekki lengur á því að halda. Þeir fá kvaðalaust þessar 3 millj. Enn fremur er orðið samkomulag um, að í stað 7. gr. kæmi ákvæði, sem tryggja rýmra skattfrelsi fyrir smáútgerðarmenn í nýbyggingarsjóð, og loks höfum við fylgi Framsfl. og þar með meiri hl. Alþ. til þess, að skattal. verði breytt við næsta tækifæri, eins og við mundum helzt kjósa. Nú gæti hv. þm. Str. sagt: „Hvaða tryggingu hafið þið fyrir því, að minn flokkur svíki ekki?“ Ég verð að játa, að það er engin trygging fyrir því, og að það er ekki hægt að koma slíkum breyt. fram nema með aðstoð Framsfl. En gæti flokkurinn þá ekki líka svikið þetta tilboð, sem hann er að bera fram? Hann gæti svikið það í Nd. Nei, við verðum að treysta því, að Framsfl. standi við yfirlýsingu sína í skattamálum.

Það var m.a. eitt í ræðu hv. þm. Str., sem ég hafði gaman af. Hann sagði ákaflega hátíðlega, að það væri ekki víst, að kjör verkalýðsins væru verri, þó að gerðardómsl. hefði verið framfylgt. Ójá. Gerðardómsl. mæltu svo fyrir, að ekki mætti hækka grunnkaup. Nú hefur þessi hv. þm. sjálfur haldið því fram, að grunnkaup verkamanna hafi hækkað um 60–70%. Ofan á þetta hafi svo komið full vísitala, sem hv. þm. heldur fram, að sé rétt, þannig að verkamenn hafi fengið dýrtíðina að fullu bætta. Hvernig getur þetta hvort tveggja staðizt?

Ég þarf ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég minntist á það í dag, að ég teldi nauðsynlegt, að smábrtt. yrði samþ. við frv. á þá leið, að mjólkurverð lækkaði annars staðar á landinu til samræmis við lækkunina í Rvík, ef ekki kæmu upplýsingar frá ríkisstj. um, að l. yrðu framkvæmd þannig. Þar sem engin slík yfirlýsing hefur komið frá ríkisstj., mun ég bera fram þessa brtt. Ég vænti, að hún geti ekki valdið neinum ágreiningi og verði samþ., þar sem um fullkomið sanngirnismál er að ræða.