13.04.1943
Efri deild: 98. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í B-deild Alþingistíðinda. (1025)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Hermann Jónasson:

Ég hef nú aðallega orðið fyrir stórskotahríð frá þeim, sem gert hafa samkomulag um þetta mál. Ég er því að vísu ekki óvanur, en eins og hv. forseti tók fram, þá kemst ég ekki hjá því að svara því með nokkrum orðum.

Ég hlýt þá fyrst að vekja athygli á því, að þær umræður, sem ég hef átt þátt í að halda hér uppi, eru ekki alveg tilgangslausar. Þær hafa sýnt vel órólegan og afkáralegan málaflutning veiks málstaðar þeirra, sem samkomulagið hafa gert. Í annan stað eru þær heldur ekki tilgangslausar, ef það verður ofan á meðal þeirra, sem ætluðu að fella 7. gr. alveg niður, að smáútveginum verður þó bjargað.

En það, sem sérstaklega hefur verið beint til mín, skal ég nú athuga í stuttu máli.

Það er þá fyrst það, sem hv. 3. landsk. sagði, og sýnir vel, á hve veiku stigi málafærsla hans er. Þótt við framsóknarmenn værum með því á sínum tíma, að fyrirtækjum væri gefið færi á að vinna upp töp sín, þá er það í hans augum goðgá að við skulum ekki áfram vera fylgjandi óendanlega stækkandi varasjóðum þeirra. Vitanlega gerir hv. þm. sér ljóst, að þetta eru engin rök og ekki honum sæmandi að beita þessu sem rökum. En hann grípur til þessa, af því aðstaða flokks hans er svo veik í þessu máli. Þetta sýnir ekki viðkunnanlegan blæ á málaflutningnum.

Hv. 8. landsk. sagði, að enginn samningur hefði verið gerður um að afnema 3., 6. og 7. gr. þessa frv., heldur hefði n. aðeins verið eindregið sammála um það. Aftur á móti segir hv. 3. landsk., að gerður hafi verið um þetta samningur. Þá varð ræða hv. 5. þm. Reykv. til þess að sanna þau orð mín, að stríðsgróðafélögunum hefði verið hlíft við að missa hlunnindi sin, gegn því að 3 millj. gengju til alþýðutrygginganna.

Hv. 8. landsk. segir enga samninga hafa verið gerða, en hv. 5. þm. Reykv. hælir sér af góðum samningum.

Það hefur verið minnzt á það hér af hv. þm. Barð. og hv. 8. landsk., að í þessu máli kæmi fram einhvers konar leiðinleg afbrýðissemi hjá framsóknarmönnum, af því að þeir hefðu reynt að mynda stjórn með vinstri flokkunum, en ekki tekizt það.

Ég ætla nú ekki að rekja það mál, en það er ástæða til að minnast á það í þessu sambandi, úr því að þessum ummælum er beint til mín, að ég kannast ekki við að hafa verið í neinni n. til að undirbúa stjórnarmyndun, og bjóst heldur ekki við, að það yrði framkvæmanlegt. Það vill nú svo vel til, að fyrir hendi eru nákvæm ummæli mín um það, hvernig sósíalistar mundu haga aðferðum sínum eftir kosningarnar í haust. Ég sagði, að fyrst mundu þeir látast vera óðfúsir til samstarfs, en síðan mundu þeir haga sér nákvæmlega eins og þeir hafa gert. Ég hygg, að enginn hv. þm. hafi greinilegar sagt fyrir um allt hátterni þeirra í þessum efnum en ég í Tímanum frá 8. október í haust. Þess vegna er því algerlega beint í skakka átt að tala um tilhugalíf frá minni hendi. Ég hef staðið nokkuð mikið í samningum fyrir minn flokk, en ég kannast ekki við að hafa staðið í neinum samningum um stjórnarmyndun. Þeir framsóknarmenn, sem stóðu í þeim samningum, gerðu það eftir ósk Sósfl. Sá flokkur mæltist til, að n. yrði skipuð til að athuga grundvöll fyrir stjórnarmyndun, og sá Framsfl. enga ástæðu til að skorast undan að skipa fulltrúa í þá n. Þessir hv. þm. ættu því að líta nær sér, og sízt ættu þeir að beina ummælum sínum til þm. Str. Ég átti víssa von á þessu samstarfstilboði, en víssi jafnframt, að ekkert mundi verða af samstarfinu.

Það er rétt á takmörkunum, að hægt sé að ræða um það í fullri alvöru hér, þegar a.m.k. tveir hv. þm. tala um það, að ég líti á skatta út af fyrir sig sem blessun. Ég hef aldrei tekið mér í munn orð hæstv. fjmrh., að skattar væru ekki fórn, heldur friðþæging, þótt ég sé ekki frá því.

En nú virðist því haldið fram í fullri alvöru hér, að ekki megi leggja á nokkurn skatt, án þess að honum sé ráðstafað um leið, annars sé eins og kasta honum í eld eða sjó. Þingmenn gerðu gott í að skilja, að þessu er ekki þannig varið. Þegar þess er gætt, að við erum ekki komnir lengra í afgreiðslu dýrtíðarmálanna en raun er á og ekkert fjárlagafrv. hefur verið lagt fram fyrir næsta ár, þá er ekkert vitað um, hvort nokkuð fé verður afgangs í reyndinni, þótt stórum upphæðum sé ráðstafað á pappírnum fyrirfram. Það á aðeins að gera tilraun til að leysa dýrtíðarmálin, og ef hún tekst ekki, þá hefur hún þó í för með sér tug eða tugi millj. króna í útgjöldum. Og svo heitir það ofsóknaræði eða „blessun“ á máli hv. 5. þm. Reykv. að leggja á skatta, sem ekki er ráðstafað um leið, þótt enginn viti raunverulega, hvort nokkuð verður eftir til að ráðstafa. — Það er varla hægt að tala um þetta í alvöru. Hv. þm. segjast heldur ekki skilja, að ég skuli hafa verið fylgjandi núgildandi skattalögum, en geta svo ekki verið með takmarkalausri sjóðssöfnun félaga og fyrirtækja. Halda þeir, að aldrei reki að því á mörgum stríðsgróðaárum, að takmörk þurfi að setja fyrir þessari söfnun. Er nokkurt ósamræmi í því? Nei, hér er höggvið gersamlega út í loftið, en þeir hljóta að skilja viðhorf mitt.

Það reynir ekkert á hagsmuni bænda, verkamanna og annars almennings til þess að stöðva dýrtíðina. Það er fyrst, þegar á að fara að færa hana niður, og þá þarf að vinna stéttirnar til þess að vera með í því. En þær gera það ekki, nema stríðsgróðamennirnir gangi á undan og fórni einhverju. Þið eigið eftir að reyna það, hv. þm., að náist samkomulag fyrir 15. ágúst, þá verður þess krafizt, að stríðsgróðamennirnir gangi á undan leiðina til baka, enda er það rökrétt. Eins og nú horfir þurfa allir að fórna nokkru, og það er síður en svo ósamræmi í afstöðu minni í þessum efnum, sem sósíalistar hafa ekkert talið athugavert við fyrr en nú.

Það var minnst á það af hv. 5. þm. Reykv. að með því að gera þennan samning væri öruggt, að hér kæmust á atvinnuleysistryggingar. En samkv. frv. sjálfu er aðeins gert ráð fyrir að efla alþýðutryggingarnar að undangenginni endurskoðun á þeim. Nánar er þar ekki ákveðið, og er hér þá um baksamning að ræða, ef þetta er eins og hv. þm. segir. En þegar til kemur er það þó á valdi þingsins og endurskoðunarinnar, hvernig þessum 3 millj. verður varið.

Ég hef áður sagt það, að ég tryði því ekki, að standa mundi á Framsfl. til skynsamlegra endurbóta á alþýðutryggingunum. En satt að segja um þessar sjóðsstofnanir í sérstöku augnamiði, meðan dýrtíðarmálið er enn óleyst, þá eru það næsta brosleg vinnubrögð. Það er lítils virði að gera samning um ráðstöfun á 3 millj. til þessa eða hins, e.t.v. á kostnað dýrtíðarmálsins, meðan enginn veit neitt, nema það fé verði að engu vegna verðbólgunnar eða verði alls ekki afgangs.

Það hafa verið lagðar 5 millj. í endurbyggingasjóð og 8 millj. í raforkusjóð. En hvar eru þeir sjóðir? Eru þessir peningar til? Mikið af þessu hefur orðið eyðslueyrir. Hvernig fer svo, ef greiðsluvandræði verða vegna þess að dýrtíðarmálið er ekki leyst? Ætli verði þá ekki sömu afdrif þessarar fjárupphæðar og hinna sjóðanna tveggja, sem enginn veit, hvað orðið er af á þessu stigi málsins. Ég hefði mikla ánægju af að heyra, að þessir tveir sjóðir væru til ósnortnir, þegar búið er að verðuppbæta landbúnaðarafurðirnar. Það skiptir því mestu máli að leysa málin þannig, að allir sjóðir verði ekki að engu.

Þá minntist hv. þm. Reykv. á mig í sambandi við gerðardómslögin. Ég sagðist efast um það. og hef það eftir mörgum verkamönnum, að kjör þeirra væru nokkuð betri nú en þau mundu hafa verið, þótt þau l. hefðu verið í gildi, og er það vegna hinnar miklu dýrtíðar. Nú vil ég spyrja hv. þm., ef kaupgjald hefur hækkað um 60–70% og verðlag landbúnaðarafurða jafnmikið eða meira, eins og hann vill helzt halda fram, hverjar eru þá hinar raunverulegu kjarabætur verkamanna? (BrB: Er þá vísitalan skökk?) Hv. þm. má gjarnan taka fram í, en ég spyr aftur: Hver eru svo hin bættu kjör verkamanna, sem hann er að tala um? Sannleikurinn er sá, að hv. þm. er órólegur, af því að kjör verkamanna eru ekkert betri en þótt gerðardómslögin hefðu verið í gildi. Þau eru m.a.s. að því leyti verri, að atvinnuleysi er nú yfirvofandi, ef nokkuð ber út af. Hv. þm. er svo æstur og órólegur af því að hann veit, að vandræði bíða allra verkamanna, ef ekki tekst að leysa dýrtíðarmálið. Vinnan fer minnkandi, og svo kemur að skuldadögunum. Það kemur að þeim skuldadögum, að greiða þarf þann reikning að hafa spennt dýrtíðina upp. Þann reikning verður að gera upp seinna, og bæði verkamenn og bændur er farið að óra fyrir því.

Hv. þm. sagði, að hann skildi, hvers vegna ég hefði skipt um skoðun. Ég hefði verið í þjónustu stríðsgróðavaldsins og verið rekinn þaðan. Ég get endurtekið það, að það hafa orðið hjá okkur hlutverkaskipti, eins og sjá má af 7. gr. og fleiru. En það ættu þá þm. að vita og geta farið rétt með, að ég hef hvorki verið rekinn úr þessari þjónustu né annarri. Ég óskaði ekki eftir henni, og sleit því samvinnunni, eins og honum er kunnugt sem öðrum, og getur hann farið rétt með það, ef hann vill. Ég óskaði ekki eftir þeirri þjónustu, og ég öfunda hann ekki af þeirri aðstöðu, sem hann er nú kominn í. Ég vona, að hann reynist það giftudrjúgur maður, að hann segi upp samstarfinu eins og ég. Hann verður ekki rekinn. Sjálfstæðisflokkurinn rekur engan mann úr þjónustu sinni, ef hann getur notað hann. Ég gæti gefið honum upplýsingar um það, og ég gæti trúað, að að þeim fengnum mundi hann segja upp samvinnunni fyrr en síðar.