13.04.1943
Efri deild: 99. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 814 í B-deild Alþingistíðinda. (1047)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég vil mjög eindregið skora á hv. þd. að fella brtt. á þskj. 745. Mér er m.a. kunnugt um eitt mjólkursamlag, sem hefur gert samninga um að selja mjólk úti á landi fyrir kr. 1.45 lítrann, og það kostar þetta sama félag 20 aura að koma hverjum lítra mjólkurinnar á sölustaðinn. Þessu mjólkurverði hefur verið haldið niðri með samningum undanfarin ár. Og með verðlagsákvæðunum í desember s.l. var ekki leyft að hækka þetta verð aftur, þó að kostnaður, sérstaklega að vetrinum, við þessa mjólkursölu stigi mjög mikið. Sér það hver maður, að ósanngjarnt er að láta þessa menn líða fyrir það nú, að þeir hafa haldið niðri mjólkurverðinu á þennan hátt, með því að láta mjólkurverðið hjá þeim lækka enn meira, sem samþ. þessarar brtt. hefði í för með sér. Ég minntist á það hér við 2. umr. málsins, að það væri heldur engin ástæða til þessa. Vísitalan er reiknuð út eftir kostnaði hér í Reykjavík, og verkamenn úti á landi, sem fá kaup reiknað eftir þeirri vísitölu, hafa nú betri aðstöðu til að kaupa lífsnauðsynjar sínar að flestu leyti, af því að það er ekki eins dýrt að lifa þar eins og hér, þar sem vísitalan er reiknuð.

Hins vegar hefur kaupgjaldið hækkað meira þar heldur en í Rvík, og er víða komið upp í það, sem er hér í Rvík. Ég sé því ekki ástæðu til þess að gera kröfu um það, að þessi brtt. verði samþ.

Viðvíkjandi brtt. á þskj. 749 og þeirri brtt., sem fram er komin við hana, sé ég ekki annað en þar sé einhver togstreita á milli flm., sem hefði verið langbezt, að hv. flm. hefðu getað komið sér saman við hv. fjhn. milli umr. um að jafna.

Hvað snertir mínar brtt. á þskj. 737. sem ég tók aftur til 3. umr., þá vil ég lýsa yfir, að þótt ég sé þess fullviss, að það sé mjög mikið þingfylgi fyrir þeim brtt., þá er það nú svo, að hér á elleftu stundu er ekki hægt að knýja þetta þingfylgi fram. Og með því að frv. sjálft hefur tekið miklum breyt. til hins betra við 2. umr. málsins hér, þá vil ég ekki stuðla að því, að það nái ekki fram að ganga fyrir það eitt, að það sé verið að breyta því svo mjög fyrir utan það samkomulag, sem náðst hefur. Og mun ég því taka brtt. mínar til baka, en að sjálfsögðu setja þær aftur fram, ef frv. kæmi aftur breytt frá því, sem nú er frá hv. Nd., eftir að það hefur gengið til hennar nú héðan. En ég endurtek það, að ég tel, að 1. gr. frv. sé ramgölluð enn sem komið er. En þar á nú hv. Nd. a.m.k. þá sök á að hafa haldið þessu máli svo lengi, að það væri ekki hægt að ræða till. Nd. hér, hversu góðar eða lélegar sem þær væru, og veit ég ekki, hvort hv. Nd. er megnug að standa undir þeirri ábyrgð, sem hún hefur tekið á sig í því máli. Væri óskandi, að það kæmi ekki oftar fyrir. að sú hv. d. komi svona fram.