13.04.1943
Neðri deild: 101. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í B-deild Alþingistíðinda. (1056)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Ég geri ráð fyrir, að ég hafi nokkra sérstöðu í þessum málum, sem ég vil gjarnan gera grein fyrir. Ég hef talið það nauðsynlegt til þess að gera eitthvað að gagni í dýrtíðarmálunum að lækka jöfnum höndum kaupgjald og afurðaverð og taka allverulegan hluta af stríðsgróðanum til að mæta erfiðleikum komandi tíma. Eins og þetta frv. fór frá deildinni, þá var einum þessara þátta enginn gaumur gefinn, en það var lækkun kaupgjaldsins. Við það sætti ég mig og greiddi atkvæði með frv. Þegar nú frv. kemur hingað aftur, þá hefur skattaálagning stríðsgróðans einnig verið felld niður, en sá skattur átti að vera til þess að bæta úr erfiðleikunum síðari tíma, ná nokkru réttlæti, taka fé úr umferð og tryggja verðgildi peninganna. Þetta hefur verið fellt niður, vegna þess að meiri hl. Ed. hefur talið, að ekki þyrfti að geyma neitt fé til þess að mæta erfiðleikunum, sem fram undan eru, og sú mun ætlun þeirra að ná þeim árangri, sem á að fást, á kostnað bændanna einna. Þeir einir eiga að fá lækkaðan hlut sinn. Þetta á að gera, þrátt fyrir það að vitað er, að það mun verða 10–20% dýrara að framleiða afurðir bændanna í sumar heldur en það hefur verið nokkru sinni áður. Svo miklar álita stríðsgróðamenn Ed. tekjur bænda, að þó þeir viti, að tilkostnaður vaxi við framleiðslu, þá á að lækka arð afurðanna. Af bændunum á að taka, en það má ekki lækka stríðsgróðann um einn eyri.

Afleiðingin af þessu er sú, að ég tel mig ekki geta fylgt þessu frv., þar sem í því er gert ráð fyrir, að tekjur bændanna skuli stórminnka, því að þótt vísitalan lækki eitthvað, þá hefur það engin eða mjög lítil áhrif á þann kostnað, sem bændur verða að greiða við framleiðsluna í sumar. Ég mun því greiða atkv. á móti þessu frv. og tel það skaðlegt og rýra mjög tekjur bænda og neyða þá til að draga saman framleiðsluna, en það er mjög skaðlegt á þeim óvissu og ótryggu tímum um alla aðdrætti, sem nú eru.