13.04.1943
Neðri deild: 101. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í B-deild Alþingistíðinda. (1060)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. — Ég hygg, að ég þurfi ekki að vera langorður. En vegna þess að sérstakt tilefni hefur gefizt til þess að tala um þetta mál nú, þrátt fyrir langar umr., bæði við fyrri umr. hér og einnig í hv. Ed., get ég ekki komizt hjá því að fara nokkrum orðum um þá breyt., sem hefur orðið á þessu máli, og sérstaklega þó um þau orð, sem fallið hafa hér frá hv. 2. þm. S.-M, bæði varðandi þetta mál og önnur mál, sem í raun og veru eru þessu óskyld.

Hv. 2. þm. S.-M. (EystJ) hefur alveg sérstaklega haldið því hér fram, að við sósíalistar hefðum brugðizt okkar stefnuskrám varðandi breyt. á skattal. og að við hlypum þannig frá þeim, og ~á alveg sérstaklega ég og hv. þm. Siglf. (ÁkJ), með tilliti til þeirrar breyt., sem gerð var á þessu frv. í hv. Ed. varðandi niðurfellingu skattfríðindaákvæða núgildandi skattal. En í sambandi við þessa breyt. er nauðsynlegt að athuga nokkuð, hvernig gangur þessa dýrtíðarmáls hefur verið hér í þinginu, og alveg sérstaklega nú síðustu dagana. Það var sem sagt sýnilegt, að það mundi verða allerfitt að fá flokkana saman til þess að leysa þetta dýrtíðarmál, svo lengi hefur það beðið lausnar. En þó hafði þannig skipazt að fjhn. Nd. virtist vera komin að samkomulagi í megindráttum, eftir að allir flokkar höfðu lagt fram sínar stefnutill. í þessum málum, þannig að þeir urðu að falla frá þeim að verulegu leyti og höfðu svo komið sér saman allir um eitt sameiginlegt nál., sem hér var lagt fyrir. Þá áskildu fulltrúar Framsfl. sér rétt til þess að bera fram brtt. og fylgja brtt. varðandi I. kafla frv. Og framsfl. notaði sér þetta síðan hér strax í hv. Nd. og flutti brtt. einmitt um I. kafla frv., varðandi skattfrelsisákvæðin, eða talsverðar breyt. yfirleitt á gildandi skattal. Við umr. hér í d. kom glöggt og fljótt í ljós, að Framsfl. hafði tekið þá stefnu í þessu máli. að hann vildi með engu móti láta þetta dýrtíðarfrv. fara í gegn. Hann vildi alls ekki láta lækka dýrtíðina eins og málum var komið. Hann hélt uppi hér í d. löngum og miklum umr. til metnings um það, hvort kaup í landinu yfirleitt, og þá sérstaklega úti um land, hefði verið hækkað meira en kaup bænda yfirleitt eða afurðir þeirra. Og hér fór fram hinn skringilegasti reikningur ýmissa hv. þm. til sönnunar því, að kjör verkamanna væru miklu betri heldur en kjör bænda, og þeir ættu því fyrst og fremst að fórna með því að lækka sitt kaup, en hins vegar ættu afurðir bænda að lækka miklum mun minna. Og maður sér það í raun og veru bezt, hve freklega þeir vildu ganga fram í þessa átt, þegar þess er gætt, að þeir veittu ekki fylgi sitt við þau ákvæði, sem fjhn. hafði þó orðið sammála um í þessu efni. Og hver voru þau ákvæði varðandi þetta atriði ? Það átti að lækka útsöluverð á kjöti, en bændur áttu að fá lækkunina alla greidda úr ríkissjóði. Það átti að lækka útsöluverð mjólkur, og mjólkurframleiðendur áttu að fá þá lækkun einnig greidda nema aðeins þá lækkun, sem mundi verða samsvarandi við lækkun vísitölunnar. En launþegar áttu að gera meira en að lækka kaup sitt til samræmis við vísitöluna. Þeir áttu að afsala sér þeim rétti, sem þeir höfðu samið um við atvinnurekendur, sem nema mundi um 12% hreinni launalækkun hjá þeim. Launþegar áttu í heilan mánuð að verða fyrir launalækkun, og svo auk þess í samræmi við lækkandi dýrtíð, þar sem bændur áttu að fá að halda sama verði á landbúnaðarafurðum til sín þrátt fyrir lækkandi dýrtíð. Framsóknarmenn vildu ekki una þessu. Þeir vildu ekki láta lækka útsöluverð landbúnaðarafurða, þrátt fyrir það að bændur fengju allan mismuninn greiddan úr ríkissjóði, og þar með lækka dýrtíðina. En þegar það virtist vera meiri hluti fyrir því hér í hv. Nd.samþ. þó þessar brtt. fjhn., þá byrjar Framsfl. á því að gera alls konar tilraunir til þess að spilla þessu samkomulagi og reyna að láta samþ. frv. verða alveg einskis virði, reyna að koma þannig breyt. inn í l., að þau næðu alls ekki tilgangi sínum. Og þá kemur Framsfl. fram með sína skattatill., sem á ýmsan hátt var gölluð. En við sósíalistar höfðum marglýst yfir, að að því talsverða leyti, sem till. færi í rétta átt, værum við henni sammála. Og við reyndum á ný samkomulag við Framsfl. um að fá þau jákvæðu ákvæði þess frv. í gegn ásamt nokkurri lagfæringu á skattalagafrv. Þess vegna bárum við fram frv. um víðtækari breyt. á skattal. En þá kom í ljós, að Framsfl. hafði aldrei meint neitt með því að bera fram skattatill. sína, heldur borið hana fram fyrst og fremst í þeim tilgangi að reyna að torvelda samþykkt laganna. Hann vildi ekki standa við samþykktina, þegar við höfðum gengið inn á allt, sem hann setti fram, heldur tók hann upp á því að semja við Sjálfstfl., sem var óánægður með þessi skattal., um að gera margar aðrar breyt. á frv., sem allar miðuðu í þá átt, að við gátum ekki fellt okkur við frv., og þau ákvæði frv., sem fyrir voru, voru felld niður, og frv. mátti heita eyðilagt. Það hafði því í raun og veru komið eins skýrt fram eins og á varð kosið, að Framsfl. gerði allt, sem hann mögulega gat, til þess að fyrirbyggja það, að útsöluverð á kjöti og mjólk yrði lækkað. Hann gerði allt, sem hann gat, til þess að fyrirbyggja, að lækkun á vísitölunni gæti átt sér stað. Og ég segi það alveg sérstaklega í sambandi við þau orð, sem féllu hjá hv. 2. þm. S.-M. í minn garð, að ég hefði alveg sérstaklega gaman af því að fara með honum um þau kjördæmi, sem við erum báðir úr, og heyra hann verja þessar gerðir flokks síns, eftir kosningaáróður hans frá síðustu kosningum og þá miklu ábyrgðartilfinningu, sem hann belgdi sig þá út með á hverjum fundi, þegar hann taldi sig og flokk sinn þá einu, sem vildu lækka vísitöluna í landinu, en við sósíalistar og alþýðuflokksmenn, og reyndar allir aðrir en Framsfl., vildu spenna vísitöluna miskunnarlaust upp og þar með rýra laun sjómanna, sem bundin eru við fast fiskverð. En nú hefur hann og hans flokkur orðið uppvís að því að standa á móti því, að það sé hægt að lækka vísitöluna og bæta þar með launakjör þeirra sjómanna, sem nú hafa orðið margfalt harðar úti heldur en þeir voru þegar við vorum að ferðast um Suður-Múlasýslu. Við sósíalistar ætlum okkur nú að fella þetta ákvæði niður úr frv., sem við þó í góðri trú settum inn í frv. í fullu trausti þess, að Framsfl. mundi standa við samkomulagið um frv. áfram þannig, að við gætum staðið með því að öllu leyti. Og þegar framsóknarmenn eru búnir að skrumskæla frv. og skattatill. einnig, og þó að hv. 2. þm. S.-M. haldi, að við séum nú í einhverjum kaupum um þessa niðurfelling 7. gr., þá erum við óhræddir við að fella þetta ákvæði niður í bráðina og fá eitthvað af dýrtíðarfrv., sem hér liggur fyrir, í gegn fyrir sjómenn og aðra landsmenn, væntanlega til lækkunar á vísitölunni, en fá síðan á eftir fram nauðsynlegar breyt. á skattal., ef Framsfl. í raun og veru meinar nokkurn hlut með því, sem hann hefur sagt hér í ummælum sínum um þau mál. Með því vinnum við tvennt: Við fáum lækkun á vísitölunni, sem hv. 2. þm. S.-M. hefur sérstaklega talið, að hann bæri fyrir brjósti að færa nokkuð niður, og hitt einnig, að fá breyt. á skattal. á eftir. Og ég vil segja það, að ég hygg, að það verði þessum hv. þm. ekki hlátursefni að koma á okkar austurvígstöðvar og tala við sjómenn þar eftir þær ræður, sem hann hefur flutt þar við síðustu kosningar, til þess að reyna að skjalla þá til fylgis við sig, þegar hann nú berst á móti því, að nauðsynjar þeirra verði lækkaðar með því að lækka vísitöluna.

Það er alveg sérstaklega gott, að fram skuli hafa komið hér í þessari hv. d. viðurkenning á því, hvað framsóknarmönnum í raun og veru var í hug í þessum málum. En sú viðurkenning kom fram í ræðu hv. 2. þm. S.-M., því að hann sagði afdráttarlaust, að hann hefði hér sérstöðu. Og það er sérstaða Framsfl. — það hefur greinilega komið fram — að hann væri alveg á móti því að framkvæma þessa lækkun, sem þetta frv. mundi geta haft á verð landbúnaðarafurða í útsölu. Hann var alveg á móti slíkri lækkun. Þeir menu, sem hafa haldið því fram, að kjöt þyrfti nauðsynlega að vera á kr. 7.75 pr. kgr. í útsölu hér í Rvík, miða við vinnulaun síðastliðins árs, sem voru miklu lægri að meðaltali heldur en á þessu ári, þar sem grunnkaupshækkun fór fyrst fram á síðari hluta s.l. árs. Þeir sömu menn hljóta eðlilega að halda fram, að útsöluverð á kjöti í ár þurfi ekki aðeins að vera kr. 7.15 pr. kgr., heldur miklu hærra, líklega um 10 kr. Og það, sem þessir menn óttast, er, að ef úfsöluverð á kjöti ætti að lækka í kr. 4.80 og standa þannig þar til 15. september í haust, þá þyrfti að hækka kjötið í 10 kr., ef ríkissjóður ætti ekki að borga allan mismuninn á verðinu. Því að það er það, sem þessir herrar hugsa sér, að færa kjötverðið upp í haust. En þeim hrýs hugur við því að hækka kjötverðið svona skyndilega. Og þá vita þeir, að þeim tekst ekki að gera það á svipaðan hátt eins og þeim tókst að koma þessu verði upp á síðasta hausti í kapphlaupi pólitískra spekúlanta. Þá verður væntanlega kominn grundvöllur til að binda sig við um verðlagið á þessum vörum, en þeir óttast, að sá grundvöllur segi, að verðið á þessum vörum eigi að vera nokkru lægra heldur en þeir hafa viljað fram að þessu halda fram, að það ætti að vera. En þeir hefðu átt miklu hægara með að hækka kjötið í 10 kr. kgr., ef útsöluverðið gæti haldizt í kr. 7.75 kgr. fram til hausts, alveg án tillits til allra reglna.

Það væri einnig alveg sérstaklega þess vert fyrir hv. 2. þm. S.-M. að hugsa nokkuð til þess, hvernig hann færi að verja það fyrir kjósendum sínum, sem taka kaup sitt efir fiskverðinu, að hann ætlast til þess, að vísitalan lækki, en dýrtíðin ekki, þar sem hann vill halda mjólkurverði á Austurlandi jafn háu því, sem það hefur verið, þrátt fyrir það að vísitalan lækkaði og mjólkurverð hér í Rvík þar með. Slíkt mundi ekki bæta kaupgetu austfirzkra sjómanna. En hv. 2. þm. S.-M. hefur barizt miskunnarlaust gegn því, að mjólkurverðið fyrir austan lækki, þó að vísitalan verði færð niður.

Það, sem hefur vakað fyrir Framsfl., þegar hann hefur blásið sig mest út með það, að hann vildi lækka dýrtíðina í landinu, og að hann væri í raun og veru eini flokkurinn í landinu, sem það vildi, er að lækka vísitöluna, en ekki dýrtíðina, — lækka laun verkafólksins í landinu fyrst og fremst.

Ég vil að endingu segja það, að ég mun fella mig við það að samþykkja þetta frv. eins og það liggur hér fyrir nú, í trú á það, að það verði til þess, að vísitalan, og um leið dýrtíðin, lækki allverulega frá því, sem hún er nú, án þess að ráðizt sé á nokkurn hátt á launakjör verkafólks, og þá líka alveg sérstaklega, þegar það hefur komizt inn í frv., að aðstaða smáútvegsmanna er töluvert mikið bætt. Þau kjör, sem þeir hafa átt við að búa með gildandi skattal., hafa verið færð til horfs við þau skattfríðindaákvæði, sem hlutafélög hafa notið. Og er það til mikilla bóta fyrir smáútveginn. Enn fremur með tilliti til þess, að samkv. þessu frv. á að leggja 3 millj. kr. til atvinnutrygginganna, sem kemur alveg sérstaklega hinum fátækari í landinu til góða. Og þar sem þetta frv. er að mínum dómi þannig, að það stefnir að öllu leyti í rétta átt, þá mun ég vera með í að samþykkja það. En hins vegar lýsi ég því jafnframt yfir, að ég mun vinna að því, að þær breyt. verði gerðar á skattal., sem fara í þá átt, sem við sósíalistar höfum oftsinnis lýst hér yfir. Og þegar vænta má þess, að þær breyt. verði samþ., samkv. yfirlýsingum Framsfl., jafnvel eftir nokkra daga, þá sé ég ekki annað en að málinu sé borgið.