13.04.1943
Neðri deild: 101. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í B-deild Alþingistíðinda. (1062)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Það er einkum ræða hv. þm. V.- Ísf., sem gefur mér tilefni til að segja hér nokkur orð. Honum fannst það mikil goðgá af mér að segja, að með þessu frv. væri reynt að lækka vísitölu framfærslukostnaðar á kostnað bændanna einna saman, og sagði, að það væru mörg tillit, sem þyrfti að taka. Ég veit, að það þurfti að taka tillit til þess, að verkamenn neituðu að taka kauplækkunina til greina, en það þurfti líka að taka tillit til annarra. Það eru nokkrir þm., sem eru í hlutafélögum, þar sem konur þeirra og börn eru hluthafar og mynda hlutafélagið. Þessi hlutafélög eiga hús, sem þau leigja sjálfum sér, og 20% af ágóðanum má leggja til hliðar. Aðrir eru í hlutafélögum, sem reka verzlun. Ég veit a.m.k. um tvo — þeir eru ekki þm., — þar sem konur þeirra og tengdasynir eru hluthafarnir. Það þarf að taka tillit til þess, að þetta fólk fái 20% af ágóðanum í varasjóð án þess að greiða skatta af því. En það hefur sézt yfir þau tillit, sem þurfti að taka til bændanna, og þegar þeim tillitum er sleppt, er ég ekki lengur með frv. Hver einasti maður, sem fylgist með í sveitum landsins, veit, að það kostar 5–8 kr. meira pr. tunnu að framleiða kartöflur í sumar en í fyrra. Það kostar nokkrum aurum meira að framleiða kjötkílóið og mjólkurlitrann en í fyrra, og þó er ætlazt til, að bændur einir lækki vöruverð á framleiðslu sinni. En þegar til fulls þarf að taka tillit til stórgróðamannanna, þegar ekki einu sinni er hægt að sleppa því tilliti, en allt á að takast af bændunum einum, þá get ég ekki lengur verið með frv. Ég verð að vera á móti því.