25.01.1943
Neðri deild: 41. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Finnur Jónsson:

Ég tók eftir, að hæstv. atvmrh. taldi greiðslur samkv. dýrtíðarl. kr. 1524231.70. En þá er meðtalin greiðsla vegna tilbúins áburðar. Ef ég man rétt, var þessi greiðsla afgr. hér með sérstakri þáltill., en ekki með sjálfum dýrtíðarl.

Ég vil enn fremur gera örlitla aths. við þessar upphæðir, sem þarna hafa verið greiddar úr ríkissjóði. Þegar þetta mál var til umr., hygg ég að því hafi verið slegið föstu, að upphæðin, sem greiða þyrfti vegna tilbúins áburðar, væri ekki 1 millj. kr., heldur 500 þús. kr., og lítur þess vegna út fyrir, að upphæðin hafi verið greidd helmingi hærri en Alþ. ætlaðist til. Ég vil spyrja hæstv. atvmrh., í hverju þetta muni liggja. Mig minnir, að á sumarþinginu kæmi fyrir fjvn. bréf frá Eimskipafélagi Íslands til áburðarverzlunar ríkisins, þar sem krafizt var farmgjalda, nokkuð á 4. hundrað þús. kr., og væri álits fjvn. leitað um það, hvort rétt væri að greiða þennan reikning. Í þessu bréfi var útreiknað, hve margar ferðir „Fossarnir“ hefðu farið til Ameríku, hve margar smálestir voru fluttar í hverri ferð, og kostnaði deilt jafnt á hverja smál., hvort sem flutt var mjölvara, tilbúinn áburður, eða einhver kassavara, sem venjulega er tekin miklu meiri fragt fyrir. Ég hygg, að fjvn. hafi ekki afgr. þetta, en formanni hafi verið falið að tala við ríkisstj. og það hafi verið almennt álit fjvnm., að ekki næði neinni átt að reikna flutningsgjald af tilbúnum áburði á þessum tíma, eins og „Eimskip“ ætlaðist til — mig minnir 325 kr. á smálest —, en fyrir kornvörur á sama tíma 130 kr. á smál., að ég ætla.

Ef innifaldar eru í þessari milljón, sem ráðh. nefndi, þessi nokkur hundruð þúsund kr. til Eimskipafélagsins (að nokkru leyti auka-fragtgreiðsla), þá er sú aukagreiðsla borguð, án þess að nokkur þingheimild liggi fyrir, og í rauninni gegn mótmælum fjvn. Og ég vildi mjög alvarlega fara þess á leit við hæstv. atvmrh., að þetta mál yrði athugað nánar.

Þá vildi ég spyrja hæstv. atvmrh. í sambandi við það, sem fyrirhugað er um verðlækkun á smjöri, hvort stjórnin hafi tekið til athugunar, hvort ekki ætti að skammta smjör. Það hefur sýnt sig með aðrar vörur, sem byrjað er að selja undir verði, að þær hafa verið misnotaðar, ef ekki hefur jafnframt verið haldið eitthvað í um úthlutun á þeim. Og mér er næst að halda, að sú verðlækkun, sem fyrirhuguð er á smjöri, geti orðið til þess, að haft yrði með röngu nokkurt fé af ríkissjóði, ef ekki verður jafnframt tekin upp skömmtun. Ég sé ekki ástæðu til að rökstyðja þetta nánar, því að það virðist liggja nokkuð í augum uppi.

Í þriðja lagi langar mig að spyrja hæstv. atvmrh., út af ummælum í Tímanum, sem kom út laugardaginn 23. jan., hvort það gæti haft við rök að styðjast, sem borið er þar á dómn. í verðlagsmálum, að hún hafi leyft allvíðtæka verðhækkun á vörum úti um land. Ríkisstj. gaf út sérstaka tilskipun 19. des., þar sem svo er að orði komizt, að bannað væri með öllu að hækka vöruverð í landinu frá því, sem var hinn 18. desember, og skyldi útsöluverð á vörum haldast eins og það var lægst á hverjum stað hinn 18. des. s.l. og þar til 28. febrúar n.k. Þessi auglýsing var alveg skýlaus. Þess vegna verður ekki hægt að álíta annað en það sé lagabrot að hækka verð á vörum. En í Tímanum er svo að orði komizt, með leyfi hæstv. forseta:

„Um hækkanir matvara, sem rætt er um í bréfinu, er það að segja, að þær eru allar gerðar með samþykki dómnefndar í verðlagsmálum og hafa víðar átt sér stað. Liggja til þeirra þær orsakir, að vörur þær, sem komu til landsins undir lok ársins, voru allmiklu dýrari en þær, sem áður voru fluttar inn. Hér í Rvík var farið að selja þessar dýrari vörur, áður en verðfestingarlög stjórnarinnar gengu í gildi, en þær voru þá ekki komnar til ýmissa hafna úti á landi. Veitti dómnefndin því leyfi til, að verðið mætti hækka, eins og áður segir, þegar sala þeirra byrjaði, svo að verzlunarfyrirtæki úti á landi byggju eigi við önnur og ranglátari kjör en verzlunarfyrirtæki í Revkjavík.“

Nú hefur það verið upplýst hér af hálfu hæstv. ríkisstj., — og ég hygg ekki, að ég brjóti neina leynd, þó að ég segi frá því, — að ekki hafi komið fram kröfur til ríkisstj., að einni vöru undanskilinni, frá þeim, sem selja vörur, um það að fá hækkanir af þeim ástæðum, að vörur hér í landi væru seldar undir verði. Ef þessar upplýsingar Tímans væru réttar, virðist mér upplýsingar um þetta, sem hæstv. ríkisstj. hefur gefið á þingmannafundi, hafa verið algerlega rangar. Ég vil ekki gera ráð fyrir, að svo sé, og heldur ekki gera ráð fyrir, að það sé rétt, sem stendur í Tímanum, að dómnefnd í verðlagsmálum hafi gefið leyfi til vöruhækkana þvert ofan í l. og þvert ofan í tilkynningu, undirritaða af sjálfum ríkisstjóranum. En ef hér er með rangt mál farið í þessu blaði, þá tel ég, að hér sé um svo mikilsvert atriði að ræða, að hæstv. ríkisstj. hljóti að gefa út um þetta yfirlýsingu til Alþ. Ég tel ekki, eins og tímarnir eru í landinu og eins og hæstv. ríkisstj. hefur lagt ríka áherzlu á stöðvun hækkunar á vöruverði, að hæstv. ríkisstj. geti sætt sig við að liggja undir því ámæli að hafa látið óátalið gagnvart dómnefndinni, að hún hafi brotið langmikilvægustu l., sem ríkisstj. hefur sjálf lagt ríka áherzlu á, að væru haldin.

Ég vil því spyrjast fyrir hjá hæstv. ríkisstj., hvaða upplýsingar hún getur gefið í þessu máli.