25.01.1943
Neðri deild: 41. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1360 í B-deild Alþingistíðinda. (108)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. Út af aths. hv. 2. þm. S.-M. (EystJ) um það, hvernig ég gaf upplýsingar um greiðslur eftir þál. og dýrtíðarl. frá 1941, þykir mér rétt að taka þetta fram:

Ég gaf upplýsingarnar sundurliðaðar eins og ég gerði vegna þess, að ég taldi rétt að gera það á þann hátt. Það hefur verið venja samkv. upplýsingum, sem fjmrn. hefur gefið, að þegar Alþ. gerði ályktanir um fjárgreiðslur án þess að taka sérstaklega fram í þeim, að þær ættu að færast undir einhvern sérstakan lið, þá væru slíkar greiðslur ætíð færðar sem greiðslur samkv. þeirri þál. Samkv. þessari venju hefur það, sem þegar er greitt samkv. þál. frá 23. maí 1942, verið fært á sérstakan lið, „samkvæmt þessari þál.“ Og það hefur verið gert ráð fyrir að halda þeirri venju og færa allar greiðslur, sem enn eru ekki greiddar, en ætlað er að greiða, undir sér staka liði samkv. viðkomandi þál. Og þess vegna taldi ég áðan, að greiðsla vegna þál., sem þá var um rætt, væri færð þannig.

Hv. þm. Ísaf. (FJ) hefur hins vegar upplýst hér í d., að það hafi verið sérstök þál. samþ. um lækkun á áburðarverði. Þetta var mér ekki kunnugt um, og verður það að virðast mér til vorkunnar, því að það var löngu fyrir þá tíð, sem ég varð atvmrh. Hins vegar, ef þessi þáltill. hefur verið samþ. um þetta án þess að taka fram, að upphæðin ætti að færast á vissan hátt, sem tekið sé þá fram í þál., þá tel ég eðlilegt, samkv. þeirri venju, sem ég lýsti áðan, að þetta sé fært á þann hátt, sem ég áður lýsti, undir sér stökum lið sem greiðsla vegna sérstakrar þál. Og skal mér vera ljúft að athuga þetta og reyna að sjá um, að þessu verði kippt til betri vegar.

Viðkomandi fyrirspurn sama hv. þm. (FJ) um það, hvernig þessi 1 millj. kr. upphæð hafi orðið til, get ég ekki upplýst nú. En mér skal vera ljúft að athuga það og upplýsa svo síðar. Ég get upplýst það, að 1 millj. kr. var greidd til áburðarverzlunar ríkisins. En hve mikið af því hefur farið til fragtgreiðslu og hve mikið til annarra greiðslna, er mér ekki kunnugt um, eins og stendur. En ég skal fúslega athuga það, og ef ástæður og tækifæri verða til, upplýsa það síðar.

Hv. þm. Ísaf. spurði enn fremur um það, hvort ríkisstj. hefði tekið til athugunar, hvort ekki þyrfti að skammta smjör. Þetta hefur verið tekið til athugunar nokkuð. En niðurstaðan af því hefur hingað til verið sú, að ekki sé brýn ástæða til að gera þetta. Og vil ég upplýsa hv. d. um það, að svo undarlega hefur brugðið við, a.m.k. sums staðar, að smjörbirgðir í verzlunum hafa vaxið verulega eftir áramótin, eftir að kunnugt var um þessar aðgerðir þess opinbera. Og meðan svo er, virðist varla vera ástæða til að grípa til skömmtunar á smjöri. Hins vegar hefur ríkisstj. fullkomlega opin augu fyrir þessu og mun fylgjast með ástandinu í því efni. Og ef að hennar dómi virðist brýn þörf á skömmtun á þessari vöru, mun sú skömmtun vafalaust verða gerð.

Loks var sami hv. þm. með fyrirspurn út af einhverjum ummælum í Tímanum. Ég verð að segja, að ég hef ekki lesið þessa Tímagrein, en ég heyrði, hvað lesið var. En með því að hæstv. viðskmrh. er hér fjarstaddur í dag vegna lasleika og þetta mál heyrir undir hann, vildi og mega mælast til þess, að svör um þetta megi bíða, þangað til hann er hér mættur.