15.12.1942
Neðri deild: 15. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í B-deild Alþingistíðinda. (1108)

11. mál, laun embættismanna

Frsm. (Sigurður Guðnason):

Herra forseti. — Þetta mál, sem hér liggur fyrir, fjallar um laun dýralækna. Landbn. er sammála um, að frv. verði afgr. óbreytt. N. er sammála um, að starf dýralækna sé nauðsynlegt, og telur réttmætt, að þeim séu veitt viðunandi kjör. Það er sýnilegt, að starf dýralækna er ekki eftirsótt staða, því að þeir eru sárafáir, sem hafa viljað taka það að sér. N. álítur, að þar sem jafnmikið er í húfi varðandi heilbrigðismál aðalatvinnuvegar landsins, þá sé alls ekki sæmandi að launa þetta starf svo, að líklegt sé, að enginn vilji taka það að sér. Aukatekjur dýralækna eru svo litlar, að þær munu oft ekki nægja fyrir ferðakostnaði úti um land, einkum þar, sem erfitt er um ferðalög. N. leggur því til, að dýralæknar fái álíka góð kjör og aðrir læknar landsins eiga við að búa, en kjör dýralækna hér hafa verið svo bágborin, að engum einasta manni hefur enn dottið í hug að gerast „praktiserandi“ dýralæknir. Sýnir þetta, hve langt við erum á eftir tímanum í þessu máli, sem ætti að vera fyrsta undirstaða landbúnaðarins og er mjög þýðingarmikið heilbrigðismál, læði vegna þeirra, sem stunda framleiðsluna, og eins hinna, sem kaupa vöruna. Núverandi ástand í þessum efnum er hins vegar aðeins til þess að sýnast, en ekki það starf, sem þetta ætti að vera.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta, en legg til fyrir hönd landbn., að frv. verði samþ.