25.01.1943
Neðri deild: 41. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1363 í B-deild Alþingistíðinda. (112)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. Út af ummælum hv. þm. Ísaf. um smjörskömmtun er það rétt, að ég tók það þannig, þegar hann bar hana fram, að hann gerði það bara af umhyggju fyrir neytendunum, og ég svaraði fyrirspurn hans með tilliti til þess. En nú hefur hann upplýst, að hann hafi verið meira að hugsa um, að misnotuð yrðu kannske ákvæðin um að borga uppbót á smjör í landinu. Það atriði hefur ríkisstj. haft til yfirvegunar líka. Og ég get ekki neitað því, að töluvert kom það í hug minn, að skömmtun gæti verið trygging fyrir því, sem hv. þm. nefndi, að verðlækkunin kæmi að tilætluðum notum. En við nánari athugun hygg ég, að það sé engin trygging. Þó að farið væri að gefa út smjörseðla til allra þurrabúðarmanna landsins, þá er vitað, að mikill þorri þess fólks af einni eða annarri ástæðu notar smjörlíki, en ekki smjör. Og þá er ekki hægt að vera öruggur um það, að ekki væri hægt að fá gefins seðla til þess að leika þann leik, sem hv. þm. hafði í huga. Þess vegna hygg ég, að smjörskömmtun kæmi ekki að haldi í þessu falli. En atvmrn. er nú að ganga frá reglum fyrir því., hvernig skuli verða bættur upp til framleiðenda þessi verðmismunur á smjörinu, og ætla ég, að þar hafi verið fundið ráð, sem nokkurn veginn dugi til þess að fyrirbyggja, að nokkur misnotkun geti átt sér stað, ef nokkur hætta er á slíku, sem ég hef ekki vissu fyrir, að sé. Þessar reglur ættu að geta orðið gefnar út í dag og geta þá orðið hv. þm. kunnar á morgun.

Um hitt atriðið, að hv. þm. Ísaf. var að ganga eftir því, að ríkisstj. gæfi svar við fyrirspurn hans, ætla ég að halda mér við það, sem ég hef þar um svarað. Og ég hygg, að það sé ekki venja, að hv. þm. krefjist svars við fyrirspurnum skilyrðislaust, strax og þeir bera þær fram. Og ég hygg, að hv. þm. sætti sig við það, þar sem hæstv. viðskmrh. er nú sjúkur, að svar við fyrirspurn hans bíði eftir því, að hæstv. viðskmrh. sé hér staddur.

Viðkomandi ummælum hv. 2. þm. S.-M. (EystJ) um það, hvernig gangi að útvega smjörið, skal ég upplýsa það, að ríkisstj. er þegar búin að gera pöntun á 50 smálestum smjörs, og veit ég ekki annað en það geti gengið sæmilega greiðlega, að það komi hingað til landsins. Það hafa verið gerðar ráðstafanir til þess, að smjörið yrði keypt, og ég hygg, að tryggt sé nægilegt skiprúm til að flytja það hingað. Er það von mín, að ekki verði verulegir örðugleikar á því, að við getum fengið þetta innflutta smjör.

Þá er spurningin um það, hvort við getum fengið nægilega mikið smjör innflutt til þess að geta borgað þann halla, sem ríkissjóður tekur á sig vegna uppbótar til bænda á smjörverðinu.