05.01.1943
Efri deild: 24. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1366 í B-deild Alþingistíðinda. (114)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. — Út af fyrirspurn hv. þm. Barð. (GJ) vildi ég segja nokkur orð.

Af því að hæstv. dómsmrh. er hér ekki viðstaddur, vil ég geta þess, að í ræðu hans mun ekki vera neitt það orðalag, sem nokkurt tilefni sé til að kalla ógætilegt. Til þess að rökstyðja þetta vil ég fara með þær setningar úr ræðu hans, sem helzt kæmu þar til mála. Hann sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef t.d. sjávarútgerð stöðvast, þá hlyti það að skapa mjög víðtækt atvinnuleysi, ekki einungis meðal sjómannastéttarinnar, heldur miklu viðtækara. Og þá mundi ekki langur tími líða, þar til er taka þyrfti féð, þar sem það er til, til hjálpar hinum atvinnulausu. Og svo er annað ráð líka til. Atvinnutækin, t.d. fiskiskip, gefa engan arð, ef þau eru ekki notuð samkv. ákvörðun sinni. Ríkisvaldið gæti því, ef í harðbakka slægi, tekið þau til sinna umráða leigulaust gegn hæfilegu viðhaldi.“

Ég held, að þarna sé ekki neitt, sem kemst í námunda við það að brjóta í bág við þáltill. þá, sem þm. vitnaði í áðan.

Um það, sem ég sagði í útvarpsávarpi mínu, tel ég rétt, að þm. dæmi, er þeir hafa glöggvað sig á því, eins og það var. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa það, sem ég sagði um togarana:

„Það er ekki hægt að tala svo um atvinnumál, að ekki sé um leið minnzt á það alvörumál, að togaraflotinn íslenzki hefur legið bundinn við garð um margra vikna skeið. Það þarf ekki að hafa mörg orð til skýringar því, hve alvarlegt það er, ef ekki verður skjótt leyst úr þessum vanda. Togaraflotinn íslenzki hefur um margra ára skeið verið einn aðalframleiðandi íslenzks útflutningsverðmætis. Auk tekjumissis landsins af stöðvun togaranna geta og risið enn alvarlegri framtíðarörðugleikar. Það er því að dómi ríkisstj. lífsnauðsyn, að siglingar þessar hefjist að nýju.

Ég tel mig hafa ástæðu til að vera viss um, að þegar sjómönnunum íslenzku, þessum görpum, sem eru orðlagðir fyrir hreysti og dug, er ljóst, að aðeins er um tvennt að velja, að sigla ekki eða sigla samkv. þeim óskum, sem fram, hafa verið settar af viðskiptaþjóð vorri, þá muni ekki standa á þeim.

Ég vil ekki heldur trúa öðru en að togaraeigendur skilji þá alvarlegu aðkallandi nauðsyn, sem er á því, að togararnir hefji siglingar að nýju, skilji skyldu þá, sem á þeirra herðum hvílir.

Enda fær í það þeim ekki vel, sem hafa haft fljótteknari og stórfenglegri gróða á fyrirfarandi árum en líklega nokkrir aðrir hér á landi, — færi þeim sízt vel að leggja árar í bát, — að minnsta kosti ekki fyrr en reynslan sjálf hefur sýnt, hvort tap eða hve mikið tap þarf að verða á siglingunum vegna breyttra aðstæðna.

Það er því von ríkisstj., að siglingar botnvörpuskipanna hefjist þegar næstu daga og með því verði komizt hjá. að grípa þurfi til annarra ráða.“

Annað en þetta úr ræðu minni kemur tæplega til mála í sambandi við fyrirspurn hv. þm. Barð. Um það, hvort tímabært sé að láta í ljós, að siglingar þyrftu að hefjast sem fyrst, má taka fram, að það er engin launung á að viðskiptaþjóð vor, sú sem hlut á að máli, leggur hina mestu áherzlu á, að svo verði. Um það, hvort rétt sé að nefna útgerðarmenn á nafn í þessu sambandi og tala um tregðu þeirra, vitnar bréf, sem ríkisstj. fékk 31. des., og lætur þar Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda skýrt í ljós, að það sé sitt skilyrði, „að tryggt sé, að skipin geti borið sig í þessum ferðum, en samkv. upplýsingum, sem fyrir liggja, er ljóst,“ segir í bréfinu, „að ekki eru líkur til, að önnur en stærstu skipin geti siglt til austurstrandarinnar án taprekstrar, nema unnt sé að lækka útgerðarkostnaðinn að verulegu leyti eða hækka verðið.

Til þess að ná því marki er óhjákvæmilegt, að 10% útflutningsgjaldið verði afnumið, enda þótt afnám þess tolls út af fyrir sig sé hins vegar ekki nægilegt til þess, að minnstu skipin fái borið sig á austurstrandarsiglingum.“

Þau orð, sem ég hafði, að ég ætlaðist til, að þeir, „sem hafa haft fljótteknari og stórfenglegri gróða á fyrirfarandi árum en líklega nokkrir aðrir hér á landi,“ þyrftu sízt að leggja árar í bát, a.m.k. ekki fyrr en reynsla fengist um taprekstur, gefa ekki tilefni til ummæla, sem hv. þm. Barð. virtist hafa um framkomu mína við útgerðarmenn. Þó að hann telji orð mín í garð þeirra ómakleg, verð ég að vísa til þess, sem áður er sagt. Hann hefur skilið orð mín miður rétt, og ég held ég þurfi ekki að svara þessu frekar.

Höfuðatriði er það, hvort ég hafi gefið hættulegar upplýsingar um íslenzkar siglingar. Eins og þm. er kunnugt, hefur verið komið á skoðun á öllum skeytum, sem loftleiðis eru send frá landinu. Þeir, sem annast þessa skoðun, hafa sett reglur um, hvað í loftskeytum megi standa. Orðalag mitt í ávarpinu um siglingarnar var sniðið með það fyrir augum, að það samrýmdist þessum reglum. Vænti ég, að þetta svar nægi hv. þm. Barð.