26.01.1943
Efri deild: 41. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 853 í B-deild Alþingistíðinda. (1175)

74. mál, skattgreiðsla h/f Eimskipafélags Íslands

Frsm. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er borið fram af fjhn. Nd. og er nú komið til þessarar d. Brtt. kom fram í Nd. um það að láta framlenginguna aðeins ná til eins árs, en hún náði ekki samþykki. Fjhn. Ed. hefur haft málið til meðferðar og hefur orðið sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt. Einn nm. (StgrA) tók ekki þátt í nefndarstörfum sökum sjúkleika, en annar (HG) telur, að undanþáguna eigi aðeins að veita til eins árs. Saga málsins er sú, að með l. frá 24. júní 1924 var ákveðið, að Eimskipafélagið skyldi ekki greiða skatta eftir efnum og ástæðum, eins og venja var, heldur aðeins til bæjarsjóðs 5% af nettó ágóða. Þegar l. gengu í gildi á ný, árið 1928, var engu breytt öðru en því, að í stað þess að sleppa félaginu við skatt, var sett það skilyrði, að það skyldi ókeypis flytja 60 menn til og frá útlöndum eftir ráðstöfun ríkisstj. Síðan þessi l. gengu í gildi hafa þau verið framlengd um 2 ár í senn, og var nú undanþágan gengin úr gildi við síðustu áramót, og er því nauðsynlegt að fá þetta frv. afgr. Ég geri ráð fyrir því, að meðnm. mínir séu sammála um það, að Eimskipafélagið sé svo kært öllum landsmönnum, að sjálfsagt sé að framlengja gildi þessara l. eins og verið hefur. — Ég vil svo fyrir hönd n. leggja til, að frv. verði samþ. í því formi sem það er.