18.12.1942
Neðri deild: 21. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í B-deild Alþingistíðinda. (1219)

71. mál, verzlunaratvinna

Flm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti. — Þetta frv. er ekki neitt stórmál og fer ekki fram á breyt. á þeirri löggjöf, sem það fjallar um breyt. á, nema að mjög litlu leyti.

Það má segja, að þetta frv. sé fram komið að gefnu tilefni. sem komið hefur fram í einu héraði landsins, sem sé Skaftafellssýslu, og þetta tilefni, sem fram er komið af eðlilegum ástæðum, gefur einmitt til kynna, að nú muni, og vafalaust einnig í framtíðinni, óhjákvæmilegt að breyta hér nokkuð um.

Frá byrjun hefur það verið svo hér á landi, hvort sem innlendir eða útlendir menn hafa rekið verzlanir, að þær hafa verið settar við sjó fram, eða þar sem hafnir eða lendingarstaðir hafa verið eða getað orðið. Og einmitt af því hefur svo löggjöfin fylgt í kjölfarið þannig, að gera ráð fyrir, að þessi almenna verzlunaratvinna skyldi rekin þar. Eina undantekningin frá þessum almennu verzlunarháttum var hin svo kallaða sveitaverzlun eða borgaraverzlun, sem nú er að falla úr sögunni. En hún er bundin því skilyrði, að sá, sem rekur þá atvinnu, skuli vera búsettur í sveitinni, þar sem verzlunin er rekin.

En nú er svo komið högum, að þessar smáafgreiðslur eru orðnar þarflausar, en aðrar verzlanir eru orðnar fullnægjandi, ef greitt er fyrir því, að þær geti verið á þeim stöðum, þar sem þær helzt þurfa að vera. Nú er svo komið, að samgöngubætur hafa í sumum hlutum landsins miðazt eingöngu við það að auka og bæta og efla samgöngur á landi með vega- og brúagerðum; ug er nú allur farangur, sem fluttur er eftir þeim leiðum, fluttur á bifreiðum. En þá kemur það til, sem við höfum rekið okkur á þar eystra, að verzlun var flutt frá sjó og upp í land.

Ég býst við, að hv. þm. muni vera á einu máli um það, að það sé tímabært að setja þessi l., sem frv. er um, jafnvel þótt ekki væri þegar sérstakt tilefni orðið til þess að setja þessa löggjöf, og ekki síður, þegar menn reka sig á þetta.

Um frekari röksemdir fyrir frv. þessu vil ég svo vísa til grg. þess, og leyfi mér að leggja til, að því verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. og allshn.