12.03.1943
Efri deild: 72. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1372 í B-deild Alþingistíðinda. (122)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Það hefur verið beint til mín nokkrum fyrirspurnum. Sú fyrsta er um reglugerð um hleðslumerki skipa. Fyrrv. ríkisstj. skipaði nefnd til að undirbúa málið, og var hún skipuð sérfróðum mönnum í þessu efni, og þurfti málið mikla athugun, áður en hægt væri að gefa út reglugerð.

Fyrir nokkrum dögum barst mér álit nefndarinnar, og hef ég látið gera þær ráðstafanir og athuganir, sem gera þarf í ráðuneytinu. Mun reglugerðin verða gefin út í dag eða næstu daga. Það er ætlun mín, að ekki hafi orðið neinn óþarfa dráttur á rannsókn og meðferð málsins.

Önnur fyrirspurnin var um útbúnað skipa á ófriðartímum, þeirra er sigla á hættusvæðum. Ég átti tal við Skipaskoðun ríkisins, sem hefur með þessar athuganir að gera. Lagði ég áherzlu á, að ákvæðum um skipaskoðun á ófriðartímum væri vel fylgt fram. Kom í ljós, að meiri mannafla var þörf við það starf nú en á venjulegum tímum, og gaf ég leyfi til að auka starfsliðið eftir þörfum. Ég held, að skipaskoðunarstjórinn sé skyldurækinn embættismaður. Honum hefur ekki verið fenginn fastur starfsmaður við skipaskoðunina, en honum er heimilt að ráða menn til þess eins og þörf krefur.

Þriðja fyrirspurnin var í sambandi við Þormóðsslysið. Ríkisstj. hefur skipað svo fyrir, að rannsókn fari fram í því máli. Er gert ráð fyrir, að Sjódómur tilnefni menn til þess. Mér er það kunnugt, að lögmaðurinn í Rvík er tekinn að starfa að málinu.

Ríkisstj. lítur svo á, að rétt sé, að rannsókn fari fram á öllum stærri slysum, því að verið getur, að slík rannsókn leiði eitthvað í ljós, sem getur orðið til þess, að slysum verði afstýrt í framtíðinni.