04.02.1943
Efri deild: 47. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í B-deild Alþingistíðinda. (1228)

71. mál, verzlunaratvinna

Frsm. (Brynjólfur Bjarnason):

Allshn. leggur einróma til, að þetta frv. verði samþ. óbreytt. Einn hv. nefndarmaður skrifaði að vísu undir nál. með fyrirvara, en að því er ég bezt veit, snertir sá fyrirvari ekki aðalefni frv., hann mun fylgja því eins og það er. En hins vegar tel ég ekki óeðlilegt, að greiðsla fyrir verzlunarleyfi verði eitthvað hækkuð. Þetta frv. fer aðeins fram á, að leyft verði að reka útibú frá aðalverzlun, enda þótt útibúin séu ekki á löggiltum verzlunarstað. Þetta lagaákvæði, sem ekki leyfir að reka útibú verzlunar nema á Iöggiltum verzlunarstað, er tvímælalaust orðið svo úrelt, að ekki er hægt að halda þessu lagaákvæði, og það er heldur ekki haldið, eins og bent er á í grg. frv. Löggiltir verzlunarstaðir eru sumir á afskekktum stöðum, þar sem ekki nær nokkurri átt að reka verzlun. Og það eru dæmi til þess, að útibú verzlana, sem hafa verið rekin á slíkum löggiltum verzlunarstöðum, hafa verið flutt á aðra staði, sem ekki hafa verið löggiltir verzlunarstaðir. Og er þá um annað tveggja að gera, að breyta l. eða að taka yrði leyfi af þeim verzlunum, sem reka útibú á stöðum, sem ekki eru löggiltir sem verzlunarstaðir.

Þetta virðist því vera svo sjálfsagt mál, að ekki þurfi um það að ræða. Það er mjög einfalt. Hér er um að ræða afnám á úreltum lagaákvæðum, sem er ekki lengur unnt að framkvæma. Og þess vegna hefur n. líka orðið ásátt um að leggja til, að frv. verði samþ. eins og það er, óbreytt.