21.01.1943
Neðri deild: 39. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (1254)

52. mál, lendingarbætur í Bakkagerði í Borgarfirði

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Ég vil þakka hv. sjútvn. fyrir góða afgreiðslu á þessu máli og vona, að það fái sömu afgreiðslu á hæstv. Alþ. eins og það hefur fengið hjá nefndinni.

Ég skal bæta því við, að sú heimild til ábyrgðar, sem í frv. felst, verður áreiðanlega ekki notuð nema að einhverju leyti. Það er ákveðinn vilji manna þarna eystra að reyna að koma bryggjunni upp með sem minnstu lánsfé. Og þeir hafa þegar hafið samskot til þessa verks og fengið um 40 þús. kr. til þess þannig. Þar af munu menn sjá, að þar heima fyrir er ákveðinn vilji, sem töluverðu fórnar til þess að fá bryggjuna sem fyrst. Og ég vona, að móti þeim vilja og áhuga komi hæstv. Alþ., bæði með því að afgreiða málið fljótt og vel, eins og hv. sjútvn. hefur gert, og eins með því að veita, þegar að því kemur, fjárframlög á móti því, sem þeir leggja fram þar heima fyrir á sínum tíma.