28.01.1943
Neðri deild: 44. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í B-deild Alþingistíðinda. (1273)

114. mál, hafnarlög fyrir Keflavík

Lúðvík Jósefsson:

Vegna þess að umr. urðu ekki við 2. umr. af ástæðum, sem hv. síðasti ræðum. tók fram, hef ég ekki fyrr komið því við að spyrja um tvö atriði þessa frv., sem mér þykja athugaverð. Í sjútvn. varð mjög skjótt samkomulag um frv. í heild, ekki sízt af því, að 'd nm. höfðu kynnzt því í fjvn., að mikil þörf er á þessum hafnarlögum. N. athugaði því frv. nokkru fljótlegar en ella og bar það þó lið fyrir lið saman við hafnarlög frá fyrra ári fyrir Grundarfjörð, og reyndust þau mjög samhljóða.

Annað atriðið, sem ég vildi minnast á við flm., er mjög smávægilegt. Í 7. gr. er ákveðið, að í hafnarn. sitji aðeins 3 menn. En venja er í öllum kaupstöðum a.m.k., að þeir séu 5, og mér skilst á vitamálastjóra, að nú þegar séu 5 menn í hafnarn. Keflavíkur. Sennilega stafar þetta í 7. gr. af því, að í Grundarfirði eru mennirnir 3 —og þar af skiljanlegum ástæðum, en frv. þetta mun samið eftir lögunum um Grundarfjörð.

Hitt atriðið, sem ég vildi sérstaklega spyrja flm. um, er í 10. gr. frv., sem ákveður, að „allt að 1% af andvirði afla þeirra skipa og báta, sem heimili eiga í kauptúninu og leggja þar afla á land eða hafa þar uppsátur,“ megi innheimta í hafnarsjóð. Ef til vill er brýn þörf á þessu fé, en sérstök rök fyrir því hafa ekki komið fram, og mönnum hlýtur að detta í hug víðar á landinu að krefjast hins sama fyrir hafnarsjóði, ef þessi nýjung er samþ. Ekki skal ég fullyrða, hver fordæmi kunna að vera til þessa. En í hafnarl. Neskaupstaðar t.d. er ekki þetta gjald. Hér getur verið um mikið fé að ræða. Gjaldið nær m.a. til báta, sem hafa uppsátur á staðnum, og mjög margt er um þá báta í Keflavík. Ég er ekki að svo stöddu að mótmæla þessu, þótt ég vildi ekki láta frv. fara svo úr d., að þessa væri ekki minnzt.