28.01.1943
Neðri deild: 44. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 869 í B-deild Alþingistíðinda. (1275)

114. mál, hafnarlög fyrir Keflavík

Ólafur Thors:

Út af ummælum hv. 6. landsk. vil ég geta þess, að um það atriði, að 3 menn séu í hafnarn., er farið eftir öðrum skyldum l. Það var leitað álits form. hafnarn. um þetta atriði, hvort hann óskaði eftir, að það yrði á annan veg, en hann kvað sig samþykkan, að það yrði svo óbreytt. En annars er mér það ekkert kappsmál að hafa nm. þrjá, og ef hv. Alþ. kysi heldur, að þeim yrði fjölgað upp í fimm, þá get ég mjög vel sætt mig við það.

Um f-lið 10. gr. frv. er og það að segja, að ég geri ekki ráð fyrir, að þessi heimild verði notuð, eins og þegar hefur verið bent á, en hins vegar er ekki loku fyrir það skotið, að á höfnina kæmu einhverjir ófyrirsjáanlegir fjárhagsbaggar og nauðsynlegt þætti þá að grípa til þessarar heimildar. Þess vegna vil ég bera fram þá ósk, að þetta ákvæði fái að standa, þó að mjög litil líkindi séu til þess, að það komi til mála, að sú heimild yrði látin koma til framkvæmda. Enda býst ég ekki við, að neinn ágreiningur sé um þetta atriði.