04.02.1943
Efri deild: 47. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 870 í B-deild Alþingistíðinda. (1282)

114. mál, hafnarlög fyrir Keflavík

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Sjútvn. hefur fengið þetta frv. til athugunar og hefur orðið sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að sjávarútvegsmenn á Suðurnesjum hafa átt við mjög örðugan kost að búa, hvað snertir hafnarskilyrði. Hér á Suðurnesjum hefur svo að segja engin höfn verið til, sem sjávarútvegsmenn geta treyst á fyrir báta sína, þegar eitthvað sérstakt hefur verið að veðri. Ástandið hefur yfirleitt verið þannig undantekningarlaust á öllum þeim höfnum, sem eru hér á Suðurnesjum, að þegar um sérstaklega erfið og óhagstæð veður hefur verið að ræða, þá hafa bátarnir orðið að leita burt úr þeim höfnum og til hafs, því að það hefur verið talið öruggara fyrir bátana að halda sig þar heldur en við landið. Það hefur dregizt nokkuð, að úr framkvæmdum hafi orðið um byggingu hafna á Suðurnesjum. Veldur mestu um það, að töluverður ágreiningur hefur verið um það, hvar bátahöfn ætti þar að vera. Fyrir nokkru síðan réðst einstaklingur nokkur í það að byrja á hafnarmannvirki í Keflavík. 5vo keypti bæjarfélagið mannvirkið fyrir 400 þús. kr. í þeim tilgangi að halda þessu verki áfram og reyna að koma upp bátahöfn fyrir Keflavík, án þess þó að nokkru væri slegið föstu um það, hvar aðalhöfnin á Suðurnesjum skuli vera. Þegar þessi kaup voru gerð, var það gert í samráði við ríkisstj. Og ríkisstj. hét því þá, að að fengnu samþykki fjvn. Alþ. skyldi koma frá ríkinu fullkominn styrkur til móts við þann kostnað, sem hreppurinn hafði af því að kaupa þau hafnarmannvirki, sem fyrir voru, og halda áfram verkinu. Þessi styrkur hefur þegar verið greiddur, og hefur þegar verið unnið fyrir heimildinni til fulls. Mun vera búið að greiða úr ríkissjóði full 400 þús. kr. á móti framlagi hreppsins. En það er talið, að í þau mannvirki, sem hafa verið reist þar syðra, muni þurfa 11 til 12 hundr. þús. kr. til að fullgera þau. Og er farið fram á, að Keflavíkurhreppi sé veitt úr ríkissjóði og veitt ríkisábyrgð fyrir kostnaði við þetta hafnarmannvirki, miðað við, að hann verði 12 hundruð þús. kr. og styrkurinn úr ríkissjóði og ríkisábyrgðin verði í þeim hlutföllum, sem venjulegt er um hafnarmannvirki í landinu.

Sjútvn. lítur svo á einum rómi, að sjálfsagt sé, að þessum hafnarmannvirkjum sé haldið áfram, þangað til búið er að fullgera þau, eins og til hefur verið stofnað, og að hér sé um svo nauðsynlegar framkvæmdir að ræða, að ekki megi dragast að afgreiða þetta mál nú þegar á þessu þingi. Leggur n. því til, að frv. verði samþ.