18.12.1942
Efri deild: 19. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í B-deild Alþingistíðinda. (1302)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Þetta frv. er eiginlega framhald af þál. um húsnæði handa alþm., sem aukaþingið í sumar samþ. og borin var þá fram af 14 alþm.

Eins og frv. ber með sér og er einnig tekið fram í grg. þess, þá er það eiginlega ekki um sjálft þingfararkaup alþm., heldur um þau hlunnindi, sem alþm. utan Rvíkur hafa auk þingfararkaupsins.

Það er tvennt, sem ég hef reynt að ná með þessu frv., ef það yrði samþ. Í fyrsta lagi að lögfesta þá venju, sem komizt hefur á, ég hygg skömmu eftir 1930, að þm., búsettir utan Reykjavíkur, fengju raunverulega greidda húsaleigu, sem þeir yrðu að greiða hér í bænum. Það er ákaflega vafasamt, að þessi venja eigi stoð í l., því að í l. frá 28. nóv. 1912 um þingfararkanp alþingismanna er ekkert að þessu vikið. Þar er aðeins tekið fram, hvað þingfararkaupið eigi að vera hátt og þm., sem búsettir eru utan Reykjavíkur, eigi auk þess að fá ferðakostnað eftir reikningi. Þingfararkaupsnefnd mun á sínum tíma hafa átt upptökin að þeirri venju að greiða húsaleigu utanbæjarþingmanna og ég get nefnt þann mann, sem var tillögumaður þessa innan þeirrar n. Það var Guðbrandur Ísberg, sem þá átti sæti á Alþingi. Hún mun hafa litið svo á, að telja mætti húsaleigu hér í Rvík til ferðakostnaðar, og í notum þess hafa tekið upp þessa venju, en ég verð að segja, að mér finnst þetta dálítið vafasamt, ég skil ekki segja, að það sé rangt, en ekki svo tvímælalaust sem æskilegt væri. Því er lagt til í frv., að lögákveðið verði, að það opinbera eigi að sjá alþm. þeim, sem búsettir eru utan Reykjavíkur, fyrir húsnæði, meðan Alþingi stendur, og tel ég þó, að kjör þeirra þm., sem koma utan af landi, verða að fara frá störfum og kosta þau störf, meðan þeir eru á þingi, verði þrátt fyrir þetta sízt sa?nbærileg við kjör þeirra, sent eru búsettir í Rvík, kosta engu til, en fá þingfararkaupið í aukagetu. En þó að nú sé svo komizt, að Reykvíkingar á Alþingi muni vera um 3/5 af alþm., þá hygg ég, að svo mikill skilningur sé á þessu meðal þeirra, að þetta muni ekki mæta mótstöðu frekar en þáltill., sem samþ. var shlj. í sumar.

Í öðru lagi hef ég viljað ná því með þessu frv., að utanbæjarþm. væri tryggður bústaður yfir þingtímann. Það er kunnara en frá þurfi að segja, hvað mikil húsnæðisvandræði hafa verið hér í Rvík undanfarið, og á síðari þingum veit ég um og hef enda sjálfur orðið fyrir því, að utanbæjarþm. hafa átt mjög erfitt með að fá sér húsnæði yfir þingtímann. Þm. hefðu beinlínis orðið að vera á götunni eða fara heim aftur, ef ýmsir góðir borgarar í bænum, vinir þeirra og vandamenn, hefðu ekki skotið yfir þá skjólshúsi. Ég verð að telja það með öllu óhæfilegt, að alþm. verði að vera þannig á bónbjörgum og nota sér gestrisni vina sinna og vandamanna, sem taka þá, ef ekki er annars kostur, í íbúðir sínar með því móti þá að þrengja að sér og heimilisfólki sínu, og auk þess er auðsætt, að þm., sem þannig verða að búa og verða t.d. að sofa á dívan í dagstofunni, þar sem heimilisfólkið gengur að öðru leyti um, hafa vitanlega engin vinnuskilyrði á því heimili.

Aukaþingið í sumar vildi ráða bót á þessu og samþ. þar af leiðandi þá ályktun, sem ég gat um áðan, um að skora á stj. að sjá alþm., sem heima eiga utan Rvíkur, fyrir húsnæði framvegis. En þó að þessi þál. væri samþ., þá verð ég að segja það, að hún hefur ekki verið framkvæmd eins rækilega og þessir 14 tillögumenn og þingið ætluðust til að ég hygg, því að þegar til Rvíkur kom í haust, beið okkar ekkert nema gatan, þó að úr rættist fyrir það, að ýmsir góðir borgarar í bænum skutu yfir okkur skjólshúsi. Að vísu mun ríkisstj. hafa samið við Hótel Borg um að leigja alþm. herbergi, en þessi herbergi fengust ekki fyrr en jafnóðum og þau losnuðu, og ég veit til þess, að sumir alþm., sem áttu að fá þetta húsnæði, urðu að bíða eftir því upp undir hálfan mánuð. Svo mun hafa verið ákveðið fyrst, að ríkið greiddi ákveðna leigu fyrir hvern þm., sem byggi á Hótel Borg, miðað við ódýrustu herbergin, en þau voru ekki nægilega mörg, og svo varð nokkur rekistefna í bili út af því, að kröfur komu frá Hótel Borg til þm. um að greiða mismuninn á því, sem herbergin kostuðu, og því sem ríkisstj. hafði samið um fyrir hvern þm., sem var miðað við ódýrustu herbergin.

Í þessu frv. er lagt til, til þess að þm. utan bæjar hafi húsnæði um þingtímann, sem ég tel ríkinu skylt að sjá um, að ríkisstj. sé heimilt að byggja hús í þessu skyni og verja nægilegur fé úr ríkissjóð til þess að þá að kaupa hús í sama augnamiði. En þar sem ég geri ráð fyrir, að verða kunni vandkvæði á því sem stendur að byggja hús og ef til vill að kaupa hús, þá er stj. enn fremur heimilað að í frv. til bráðabirgða að leigja húsnæði til þessara nota.

Ég álít, að þetta sé meira nauðsynjamál en margur kann að ætla. Ég er ekkert viss um, nema það kunni að vera, ef slíkur bústaður fyrir alþm. hefði verið til og þar af leiðandi orðið meiri kynning milli alþm. en verið hefur, að það hefði haft bætandi áhrif á einhvern hátt á stjórnmálin og ekki víst, að öll þau óhöpp, sem hent hefur, hefðu orðið, ef þetta mál hefði verið komið í kring fyrr. Náttúrlega legg ég ekki mikið upp úr þessu. Aðalatriðið er það, að menn, sem þjóðin hefur kjörið til að vinna í bænum langan tíma í þjónustu ríkisins, en heima eiga annars staðar, eiga að sjálfsögðu heimtingu á, að ríkið sjái svo um, að þeir geti verið hér meðan á starfi þeirra stendur.

Það er ekki hvað sízt tímabært nú að bera fram till. í þessa átt, þar sem bæði í lögum landsins og eins í reglugerðum, sem gilda fyrir Reykjavíkurbæ, er torveldað, að utanbæjarmenn, hvort sem það eru þm. eða aðrir, fái húsnæði á leigu í bænum.

Það kann að vera nokkurt vafamál, til hvaða n. þetta frv. á að fara. En þar sem frv. er um þingfararkaup alþm., og launamál hafa venjulega verið í fjhn., þá legg ég til, að málinu sé vísað þangað.

Ég skal að lokum taka fram, að ég hef viljandi gengið fram hjá að gera nokkra breyt. á sjálfu þingfararkaupinu. Það var ákveðið 1912, og voru þá allt aðrar ástæður en nú. Kaupið er 12 kr. Ég veit ekki, hvað grunnkaup Dagsbrúnarverkamanna er, en ég hygg, að það sé æðimiklu hærra. Þetta er náttúrlega hreint hneyksli, að það skuli standa í l., að alþm. fái ekki nema 12 kr. á dag. En þar sem þessu frv. verður væntanlega vísað til n., þá álít ég, að sú n. geti gjarnan, ef henni sýnist svo, gert till. um breyt. á sjálfu þingfararkaupinu, og þess vegna hef ég gengið fram hjá því atriði, en ekki sökum þess, að ég telji það vera sæmilegt kaup, jafnvel þó að allar venjulegar uppbætur komi á það kaup.