19.03.1943
Neðri deild: 79. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1375 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Út af fyrirspurn hv. þm. Vestm. vil ég taka það fram, að mér hefur verið það ljóst, að nú um langt skeið og í sívaxandi mæli hefur borið á því, að erfitt væri að fá ýmsar vörur frá Ameríku. Þetta er stríðsfyrirbrigði, sem búast má við, að verði meira áberandi, eftir því sem stríðið dregst lengur. Í þessu sambandi skal ég taka það fram víðvíkjandi annarri fyrirspurninni, um störf víðskiptaráðs, að það hefur það fyllilega í huga, að störfum þess verði hagað þannig, að mönnum verði ekki gert erfiðara fyrir en tök eru á um að ná þeim vörum, sem er að verða þurrð á vestan hafs. Ég vil geta þess, að sú nauðsynlega stöðvun, sem orðið hefur á innflutningi sumra vörutegunda, stafar af því, að viðskiptaráðið hefur orðið að byggja upp á nýjum grundvelli. En ég hygg, að nú sé svo langt komið þeirri byggingu, að ekki líði á löngu, að þetta megi þannig fara, að landsmönnum verði ekki gert erfiðara fyrir en áður við að ná í þær vörur, sem um er að ræða. Þetta er mjög nauðsynlegt mál, og mun ég ekki láta mitt eftir liggja, til þess að viðskiptaráð geri mönnum ekki erfiðleika að óþörfu.

Hv. þm. Ísaf. bar hér fyrir stuttu fram fyrirspurn um útvegun mótorvéla í fiskibáta, en það hafa undan farið verið miklir erfiðleikar á að fá þessar vélar til landsins. Á fyrsta ári stríðsins fengust þær frá Englandi, en eftir að samningurinn var gerður við Bandaríkin, var gert ráð fyrir, að Íslendingar keyptu þessar vélar þaðan. Voru þá gerðar ráðstafanir til þess, að það mætti takast, en það hefur gengið erfiðlega að fá þær í gegnum umboðsmenn, þótt þeir væru margir. Að lokum var tekinn upp sá kostur að senda sérfræðing vestur til þess að athuga, hvaða vélar mundu henta bezt hér. Þetta hefur þó ekki borið betri árangur en það, að þessi maður hefur nú verið vestra um nokkurra mánaða skeið, og það er nú fyrst fyrir um hálfum mánuði, að gerður hefur verið kostur á því að kaupa hingað frá U.S.A. 18 vélar af ákveðinni tegund, og eftir öllu að dæma, þá virðist ekki hafa verið um neitt val að ræða. Verðið á þessum vélum mun vera afar hátt, enda hafa menn hér verið mjög hikandi við að festa kaup á þeim, og hafa enn ekki verið keyptar nema þrjár þrátt fyrir hina miklu erfiðleika, sem útvegurinn hefur átt við að stríða í þessum efnum. En að því er að Bretlandi snýr er aðstaðan að vissu leyti nokkuð sérstök. Margir höfðu pantað vélar frá Bretlandi snemma á árinu 1941. Flestir af þessum mönnum hafa greitt eitthvað upp í vélarnar, að öllum líkindum einn fjórða hluta andvirðisins. En afgreiðsla hefur dregizt á þessum vélum, og nú fyrir skömmu, þegar Bandaríkin og Bretland gerðu samninga sín á milli um það, hvaða vörur Ísland ætti að fá frá hverju landi, þá virtist vera alger stöðvun á útflutningi þessara véla, sem pantaðar höfðu verið og að mörgu leyti smíðaðar sérstaklega fyrir íslenzka fiskibáta. Það, sem gert hefur verið til þess að ná í vélarnar, er það, að sendiherra Íslands í London var ritað um þetta fyrir viku og lögð fyrir hann öll gögn, og honum var falið að útvega útflutningsleyfi fyrir þessum vélum frá Bretlandi. Hvort þetta fæst, er ekki enn þá útséð, en það virðist vera a.m.k. fullkomin sanngirniskrafa af okkar hálfu, að þessar vélar fáist innan skamms, þar sem þær eru pantaðar fyrir ári og borgað hefur verið inn á þær af kaupendum. Ég get ekki gefið ákveðin svör að svo stöddu, en ég get fullvissað hv. þm. um það, að allt verður gert, sem í ráðuneytisins valdi stendur, til þess að fá þessum málum kippt í lag.