19.03.1943
Neðri deild: 79. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1376 í B-deild Alþingistíðinda. (132)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Jóhann Jósefsson:

Ég vil þakka hæstv. viðskmrh. fyrir svör hans við fyrirspurnum mínum og enn fremur fyrir það, að hann telur sig fúsan til þess að vinna að því, að almenningi hér á landi skapist sem minnst óhagræði af því stríðsfyrirbrigði, sem hæstv. ráðh. nefnir svo, sem sé vaxandi skorti á nauðsynjavörum þeim, er vér þurfum að kaupa á markaði vestan hafs. Í þessu sambandi dettur mér í hug að minna á hin mörgu skrif og hinar mörgu átölur, sem sú stj., er við höfðum í byrjun ófriðarins, fékk fyrir afskipti sín af innflutningnum, og þá ekki sízt fyrir afskipti sín af innflutningnum eftir að gjaldeyriskostur þjóðarinnar hraðbatnaði árið 1940. Ég tek þá ríkisstj. engan veginn undan þungu ámæli í því efni. Það verður sennilega aldrei með tölum talið, hversu mikið tjón peningalega þjóðinni var gert með því, hve lengi var haldið í spottann af hálfu innflutnings- og gjaldeyrisnefndar fyrrverandi, hvað efnivörur og aðrar nauðsynjavörur áhrærði. Það verður ekki með tölum talið, hvert ófremdarástand með þessu var leitt yfir þjóðina að ýmsu leyti, og sýnir það sig í húsnæðisleysinu og húsnæðisvandræðunum meðal annars. NÚ vildi ég benda á það, að hæstv. viðskmrh. kvaðst hafa augun opin fyrir því, eins og ég veit, að hann hlýtur að gera samkvæmt stöðu sinni og reynslu, að nú færi mjög vaxandi tregðan á því, að við fáum nauðsynjavörur í Ameríku. En mér kemur dálitið undarlega fyrir sjónir, ef hæstv. ráðh. hefur augun opin fyrir þessu eða sú stofnun, sem á að vinna eftir boði og bendingum þessa hæstv. ráðh., vegna þess að t.d. nú er það þannig, að í Kanada, þar sem undanfarin stríðsár hefur verið hægt að festa kaup á almennum borðvið, þar er það svo nú, að pantanir eru komnar niður. Ef menn panta t.d. 100 þús. borðfet, kemur það svar til baka, að ekki sé hægt að útvega nema 60–70 þús. borðfet. Ég veit eitt fast dæmi, þar sem viðkomandi maður pantaði 65 þús. fet og ekki var hægt að láta nema 40 þús. fet. Þetta er alveg nýtt fyrirbrigði í þessum málum. En á sama tíma og þetta er að gerast, þá er viðskiptaráð að senda einum og öðrum alveg blákalda neitun um innflutning á borðvið. Ef þessir kerrar, sem skipa viðskiptaráð, hafa fylgzt með því, að aðstaðan sé orðin þannig í viðarsölunni, að það verði að skera niður pantanir, þá finnst mér það vera alveg út í bláinn og fullkomið ábyrgðarleysi að synja mönnum um að geta fest sér lítinn kvóta af því, sem þeir þurfa að fá. Nú er hæstv. Alþ. búið að ganga frá löggjöf varðandi verzlunarstéttina, sem gerir ekki ráð fyrir, að nokkur maður dirfist að festa kaup á borðvið vestanhafs án þess að hafa fyrirfram fengið leyfi hér heima.

En það sjá allir, hver niðurstaðan verður, ef um leið og ófriðarríkin skera niður þá vöru, sem vant var að láta af hendi eftir láns- og leigukjörum, verður farið inn á þá braut af íslenzkum yfirvöldum að synja mönnum um innflutningsleyfi. Ég get nefnt aðra tegund byggingarvöru, sem mjög hefur verið flutt til landsins, en er nú fyrir löngu torvelt að fá. Það er svokallaður krossviður, sem nú er miklu meira notaður bæði við húsgagnasmíðar og alls konar byggingar heldur en áður hefur þekkzt. Þessi vara er nú orðin svo að segja ófáanleg og það er gert ráð fyrir því, að það af henni, sem fáanlegt kann að vera, muni helzt mega fá, ef menn hafa duglegan kaupsýslumann þar vestra fyrir sig. Mér er nú ekki kunnugt um það, hvort í milliríkjasamningum milli Bandaríkjanna og vor er gert ráð fyrir, að slíkur viður verði fluttur til landsins. En þrátt fyrir það, að ástandið í þessum málum er orðið svona, hefur undanfarnar vikur staðið í óskaplegu stímabraki við viðskiptanefnd, — víðvíkjandi krossvið, sem einhverjir borgarar landsins höfðu verið svo forsjálir að festa kaup á, áður en öll sund voru lokuð í þessu efni, — um það að fá þetta losað undan banni og höftum n. Ég hef nú í höndum lítið brot af skrá yfir vörur, sem Eimskipafélagið í New York virðist hafa sent til viðskiptamanna sinna til að kunngera þeim, hvaða vörur bannað sé að flytja með skipum Eimskipafélagsins til Íslands, án þess að fengið hafi verið leyfi frá viðskiptaráði. Meðal þeirra hluta, sem þarna er lagt blátt bann við. að megi taka um borð í New York án leyfis viðskiptaráðs, eru t.d. þurrkaðir ávextir. Ég geri ráð fyrir því, að hæstv. stj. og hv. þm. sé ljóst, að þurrkaðir ávextir sé nauðsynjavara og jafnvel nauðsynlegri en nýir ávextir. Svo koma m!est á þessum lista tvenns konar hlutir, það eru tauvindur og þvottavélar. Ég skil nú ekki, að viðskiptaráð sé svo blint fyrir ástæðum húsmæðranna í þessu landi, ekki sízt í höfuðstaðnum, að það sjái ekki, hver nauðsyn húsmæðrunum er á því að eiga tauvindu eða þvottavél því að það er vitanlegt, að það léttir ekki hvað minnst störfin á heimilunum, ef hægt er að losa húsmæðurnar við þvottana.

Ég hef drepið á nokkur dæmi af handahófi og skal ekki orðlengja mjög um það. Tíminn er nú orðinn nokkuð langur, frá því að viðskiptaráð var sett á laggirnar og það fór að mynda sér hinn „breiða grundvöll“ sem hæstv. ráðh. kallar svo, og hann er nú ekki svo mjósleginn, ef það er rétt sem hermt er, að viðskiptaráð hafi tekið á leigu heila hæð, þar sem eru 15 herbergi. Ég vil nú með tilliti til þessa benda hæstv. viðskmrh. og n. á það, að með því áframhaldi, sem er á þessum hlutum, stefnir beint að því, að tækifærin, sem við höfum í dag til þess að afla nauðsynlegra áhalda, byggingarefnis o.fl. vestan hafs, verða á morgun, — þann morgun, sem viðskiptaráð raknar við sér, — frá okkur tekin. Það var afsökun þeirra manna, sem mest stóðu á móti innflutningi fyrir stríð, að gjaldeyrisgeta þjóðarinnar var þá í miklum bobba, og sú afsökun var mjög gild. Nú er gjaldeyrisgeta þjóðarinnar ekki í miklum bobba, og samkv. þeim upplýsingum, sem hæstv. atvmh. gaf fyrir nokkru, fer gjaldeyrisgeta okkar í Bandaríkjunum mjög batnandi. Hins vegar hefur það verið upplýst af hæstv. viðskmrh., að farmrúm leyfðu ekki, að keypt væri nema mjög takmarkað vörumagn vestan hafs. Ég skal játa, að takmörk hljóta að vera fyrir öllu, en það er dálítið varhugavert að standa á móti því, að borgarar landsins festi kaup á nauðsynjavörum, sem kunna að fást í dag, en eru ekki fáanlegar á morgun, vegna þess að þær þurfa að bíða lengur eða skemur eftir skipsferð. Það hefur verið sagt, að um 11 þús. tonn af vörum liggi í New York og bíði eftir flutningi heim.

Ég gæti trúað því, að meginparturinn af þessum 11 þús. tonnum séu þýðingarmeiri vörur en margt af því, sem skipin hafa flutt til landsins að undanförnu, og ég vil spyrja þá herra, sem þessu ráða: Hafa þeir þá örugga vissu fyrir því, að þessar vörur nái nokkurn tíma til landsins“ Það er vitanlega tvennt til í því eins og svo mörgu öðru. Svo er annað. Ég tel það betra, jafnvel þó að ekki fáist flutningur á vörunum heim mánuðum saman, að þær bíði geymdar í vöruhúsum fyrir vestan. Ég tel miklu betra, að menn fái að fest kaup á þeim, því að ameríska stj. tekur síður þá hluti í sína eigu, sem búið er að festa kaup á og borga, heldur en það, sem er þar í eigu innlendra manna. Ég vildi, sem sagt, tala þessi aðvörunarorð til hæstv. stj. allrar í heild á þessari stundu, og þá ekki sízt til hæstv. viðskmrh. Það er gott og blessað að hafa sérstakt „system“ í sambandi við innflutninginn, en ég veit raunar ekki, í hvaða átt því er stefnt, en ég veit hins vegar, að allar helztu aðgerðir hæstv. stj. hafa hingað til beinzt að verzlunarstétt landsins, þeirri stétt, sem engra lagalegra sérréttinda nýtur. Það getur verið gott að hafa viðskiptaráð, en það á enginn verzlunarmaður sæti í því ráði. Ég vil benda á það, að það er alveg nauðsynlegt að gjalda varhuga við því, að við stöndum uppi frammi fyrir því, að það, sem var fáanlegt í gær, verði ekki fáanlegt meira þrátt fyrir öll leyfi frá viðskiptaráði.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta meira, en vænti þess, að hæstv. viðskmrh. skilji það engu síður en ég og aðrir, að höftin, sem áður áttu rétt á sér, á meðan gjaldeyrisgeta þjóðarinnar var mjög bágborin, þau urðu ákaflega tvíeggjað sverð, eftir að gjaldeyrisgeta þjóðarinnar batnaði. Þau gerðu okkur stórkostlegan skaða, eftir að gjaldeyrisgetan batnaði, og þau eru í dag enn tvíeggjað sverð, þegar viðhorfið er það, að vörurnar fást ekki út, annaðhvort fyrir skort á verkafólki til framleiðslunnar eða fyrir það, að herstjórnin þar í landi heimtar vörurnar til sinna nota, eins og verið hefur t.d. með krossviðinn. Frá hálfu útlendrar viðskiptaþjóðar er nú smáþrengt að því, að við fáum þær vörur, sem við þurfum að nota, og mér er ekki alveg grunlaust um, að nú stefni í þá átt, að hugsað sé um það að knappa við okkur vörur hingað til landsins.

Af þessum ástæðum virðist mér, að mikill dráttur á því að veita innflutningsleyfi verði mjög tvíeggjað sverð og sé rétt fyrir hæstv. stj. að athuga það í tíma.