04.02.1943
Neðri deild: 49. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í B-deild Alþingistíðinda. (1321)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Ég er hér meðflm. að þessari till. á þskj. 283, og með því að 1. flm. er ekki við, ætla ég að fylgja henni úr hlaði með nokkrum orðum, þar sem líka er búið að mæla gegn henni, áður en mælt hefur verið fyrir henni, sem er þó ekki venjulegt.

Það, sem vakti fyrir mér, er ég gerðist flm. að þessari till., var það, að mér skilst, að þessi breyt. sé miðuð við núverandi ástand og sé gengið út frá því, að af því að ekki er hægt að fá húsnæði nú, verði það ekki hægt í framtíðinni og verði því ekki hægt að leysa þetta öðruvísi en með því að byggja á þessum tímum. Ég lít svo á, að þeir erfiðleikar, sem hafa skapazt fyrir þm. um að fá húsnæði núna, séu bráðabirgðaástand, og það sé ekki rétt að leysa þessi vandkvæði með því að byggja sérstakan bústað fyrir alþm., heldur eigi að leysa þau með leiguhúsnæði. þangað til tímarnir breytast og þeir geta leigt sér húsnæði eins og áður var gert. Þetta er það, sem ég meina með þessari brtt., og ég held, að það, sem gert er bæði í þessu máli og öðrum, sé of mikið miðað við það ástand, sem nú er, en það er aðeins bráðabirgðaástand, sem vonandi varir ekki lengi.