04.02.1943
Neðri deild: 49. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 883 í B-deild Alþingistíðinda. (1324)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Stefán Jóh. Stefánsson:

Að því er snertir frv. og brtt. á 283. þskj., vísa ég til þess, sem hv. 2. þm. S.-M. sagði áðan, og er ég honum að mestu sammála. Mér finnst það mundi vera mjög óheppilegt að taka ráðherrabústaðinn handa þm., eins og hv. þm. Borgf. vill gera. En um eitt var ég hv. 2. þm. S.-M. ekki alveg sammála. Það hlýtur að reka að því hér á landi sem annars staðar, að það verði ekki forsrh., heldur utanríkisrh., sem verður að halda uppi risnu af hálfu ríkisstj. Þó að við höfum nú fengið æðsta valdsmann okkar inn í landið, breytir það ekki því, að ríkisstj. hlýtur alltaf að verða að halda uppi risnu. Á Norðurlöndum er það svo, að utanríkisrh. heldur uppi slíkri risnu af hálfu ríkisstj., og býst ég við, að svo hljóti einnig að verða hér. Þess vegna tel ég, að gera ætti ráðherrabústaðinn að sérstökum bústað utanrrh. Mér er það t.d. minnisstætt, að forsrh. Svía býr í bústað, sem hann reisti sér, áður en hann varð ráðh., en utanrrh. þeirra býr í bústað, sem ríkið leggur honum til, og svo mun vera annars staðar Norðurlöndum, en í Englandi hefur forsrh. að vísu bústað í Downing Street, sem hið opinbera leggur honum til, en svo er reyndar um fleiri ráðh. þar.