06.02.1943
Neðri deild: 51. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í B-deild Alþingistíðinda. (1332)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Gísli Guðmundsson:

Síðan húsnæðisskorts fór að verða vart í Rvík hefur borið á því, að þm. hafa átt erfitt með að útvega sér húsnæði, og mun þetta hafa valdið töluverðum vandræðum fyrir suma þm. Hins vegar var það svo áður en í óefni var komið um húsnæðismálin í Rvík, að húseigendur hér í bæ sóttust eftir því að leigja þm. herbergi. Ég geri ráð fyrir, að þegar ástandið breytist í húsnæðismálunum, muni og greiðast úr þessum vandræðum þm. En framkoma þess máls, sem hér liggur fyrir, mótast af ástandinu, eins og það er nú. Engu að síður get ég verið samþ. þeim atriðum frv., sem fjalla um það, að ríkisstj. sjái þm. fyrir húsnæði. Það væri ekki nema eðlilegt á hvaða tíma, sem er. En við flm. brtt. á þskj. 283 getum ekki fallizt á, að nauðsynlegt sé að heimila ríkisstj. að stofna til sérstakrar húsbyggingar í þessu skyni. Ég er viss um, að ef ríkisstj. yrði falið að hafa framgöngu um útvegun húsnæðis handa þm., yrði henni engin skotskuld úr því, enda hygg ég, að fyrir flm. málsins í Ed. hafi ekki vakað, að ríkið réðist í neinar stórbyggingar, en ég er ekki í vafa um, að ef á annað borð verður ráðizt í slíkar athafnir, verður mikið lagt í kostnað. Það hefur komið fram í umr., að slík framkvæmd yrði að vera með virðulegum hætti, en ef farið verður að reisa hótel handa þm. með þeim virðulega hætti, þýðir það ekki minna en 1/2 millj. kr. í kostnað. Við þm. höfum fyrir nokkrum dögum fellt ýmsar útgjaldatill. upp á 1/2 millj., sumar þannig vaxnar að ekki eru óþarfari en þm- bústaðir. Ef Alþ. samþ. slíka heimild til nýrrar byggingar, tel ég, að á eftir sé þeim nokkur vandi á höndum að standa á móti svipuðum útgjaldaliðum. Ég vil því eindregið leggja til, að þessi byggingarheimild verði felld úr frv., og hygg, að þrátt fyrir það verði tilgangi flm. náð.

Hv. þm. Borgf. hefur borið fram brtt. á þskj. 343 um, að til mála geti komið, að forsrhbústaðurinn verði tekinn til þessara nota. Brtt. hans er nánast til ábendingar fyrir ríkisstj., og mætti jafnframt skoða hana sem heimild, ef samþ. verður. Með brtt. þessari er verið á réttri braut, því að eðlilegt væri, að ríkið reyndi að greiða úr þessu með því að nota húsnæði, sem ríkið á, en hins vegar efast ég um, að heppilegt sé að taka þann bústað til þeirra nota, því að vafasamt er, hvort ríkið getur án þess verið að eiga slíkan bústað fyrir forsætis- eða utanríkisrh., enda mundi þurfa að gera kostnaðarsamar breyt. á húsinu, ef ætti að taka það til annarra nota en til er ætlazt í upphafi. Það væri þó e.t.v. ekkert á móti því, að ríkið hefði augastað á þessu húsi, og læt ég brtt. liggja milli hluta.