06.02.1943
Neðri deild: 51. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í B-deild Alþingistíðinda. (1335)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. — Við 2. umr. þessa máls gat hv. þm. Borgf. þess, að til þess að bæta úr vandræðunum áliti hann hugsanlegan möguleika að taka forsætisráðherrabústaðinn til afnota. Þá andmælti ég því fyrir mitt leyti, að horfið yrði að því ráði.

Þar sem hv. þm. Borgf. hefur nú við þessa umr. borið fram brtt., sem miðar í sömu átt, þá vil ég nú rétt aðeins árétta skoðun mína. Það er byggt á misskilningi, að þótt við höfum nú fengið æðsta vald ríkisins inn í landið og þótt svo verði í framtíðinni, þá lyfti það þeirri byrði af herðum ríkisstj. að halda uppi nokkurri risnu. Það hefur tíðkazt erlendis, og það verður svo, að þótt þjóðhöfðinginn haldi uppi risnu, þá verður ríkisstj. einnig að gera það að einhverju leyti. Sá ráðh., sem hefur það með höndum, þarf að ráða yfir hæfilegu húsnæði til þess, því að það er mjög leiðinlegt að þurfa að leita á náðir skemmtistaða eða veitingahúsa í hvert sinn. Nú er sú skipun komin á, að íslenzkur ráðh. fer með öll utanríkismál landsins án nokkurra afskipta af hálfu sambandsríkis okkar. Nú er það í samræmi við viðurkennda siði og reglur, að sá ráðh., sem fer með utanríkismál, hafi slíka risnu með höndum, en þar með er ekki sagt, að forsrh. þurfi ekki einnig að halda uppi nokkurri risnu. Ég er hins vegar sammála hv. þm. Borgf. um það, að hvorki efnahagur þjóðarinnar né fólksfjöldi leyfir það að halda uppi dýrri og tildurslegri risnu. En það er ekki í samræmi við okkar íslenzku gestrisni að hafa enga risnu, heldur verðum við að halda uppi hæfilegri risnu miðað við fátækt okkar og fámenni. Það verður líka alltaf að halda uppi nokkurri risnu af hálfu ríkisstj. og utanríkisráðh. verður alltaf að hafa tryggt húsnæði til slíks. Hann þarf alls ekki að búa sjálfur í þessu húsnæði, heldur getur hann búið í sínu eigin húsi. Ég þekki eitt slíkt dæmi frá Norðurlöndum, en það var þegar próf. Halfdan Koht var utanrrh. Norðmanna, þá bjó hann í litlu húsi fyrir utan Osló, en hafði svo umráð yfir höll inni í borginni til þess að halda veizlur í.

Nú vill svo vel til, að íslenzka ríkið á allgott hús hér við Tjarnargötu. Það er að vísu gamalt timburhús, en með góðu viðhaldi mun það verða hæfilegt til þess að halda þar uppi risnu af hálfu ríkisstj. um nokkurt árabil. Ég álít líka alveg sjálfsagt, að sú skipulagsbreyting komist á, að það verði fengið utanrh. til afnota. Mér þykir líka sennilegt, að nú komi bráðum fram frv. um það að koma nýrri skipan á húsnæði ráðherranna, launakjör þeirra og risnufé. Við höfum heldur enga skyldu til þess að láta forsrh. hafa bústað frekar en hina ráðh. En það ætti að ganga frá þessum málum um risnu og laun ráðh. fyrr en síðar. Það er alls ekki vanzalaust fyrir íslenzka ríkið að launa ráðh. svo sem nú er gert. Núverandi ástand í þessum efnum er alveg óverjandi. Menn verða líka oft að hverfa frá ýmsum störfum, er þeir taka við ráðherraembætti, og þá eiga þeir oft erfitt með að taka við þeim aftur, er þeir fara úr stj. Við þurfum að búa betur að þeim mönnum, sem fara með helztu vandamál ríkisins.

Þá vil ég geta um það, að þótt hér sé aðeins um heimild að ræða, þá finnst mér fjarri lagi, að Alþ. ætti að sýna nokkurn vilja til þess að láta af höndum það húsnæði, sem nú er til. Það er enginn vafi, að þá þyrfti von bráðar að láta byggja nýtt hús mörgum sinnum dýrara í stað þess, að vel má nota ráðh.-bústaðinn enn um langa hríð til þess að halda þar uppi hæfilegri risnu í samræmi við íslenzka gestrisni, en tildurslausri og án þess að nokkru sé sóað.