19.03.1943
Neðri deild: 79. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1382 í B-deild Alþingistíðinda. (135)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Jóhann Jósefsson:

Hæstv. viðskmrh. virðist eitthvað svona hálfóánægður yfir ræðu minni. hað var fjarri því, að ég væri að halda eldhúsræðu yfir hæstv. ríkisstj., því að það, sem ég sagði hér, var algerlega á eigin ábyrgð. En mér er ekki ljóst, við hvað hæstv. ráðh. átti, er hann sagði, að það væri mælt úr hörðustu átt, að ég minntist á þessi mál. En þar sem ég umgengst mest verzlunarmenn utan þingsins, þá er ekki óeðlilegt, að mér sé kunnugt um, hvað gerist í þessum efnum, bæði um það, hvað við fáum kvóta á frá Ameríku og einnig frá viðskiptaráði. Ég gat ekki vel skilið hæstv. viðskmrh., er hann minntist á, að okkur væri úthlutaður kvóti af timbri, — að samkomulag væri milli Kanada og Bandaríkjanna um það. En svo sagði hann, að Kanada hefði engar skyldur að rækja gagnvart Íslendingum. Sé það svo, að það væri búið að ákveða frá öllu meginlandinu allverulegan kvóta til Íslands, þá hefðu kannske aths. mínar lítið að segja hvað timbrið snertir. En ef Kanada hefur engar skyldur að rækja við okkur gagnvart viðskiptum, þá sé ég ekki, hvaða vit er í þeirri stefnu að neita mönnum um timburinnflutning, þegar hægt er að sannfærast um það, að þeir fyrir vestan eru þegar farnir að minnka þennan innflutning við okkur. Ég álit það ekki rétta stefnu, að við hér heima stígum fyrsta sporið til þess að minnka þann innflutning af nauðsynjavörum, sem landið þarf. Og þó að ég hafi ekki minnzt á það áður, get ég sagt hæstv. viðskmrh. það nú, að ég kunni því frekar illa, að hann í einni af sínum fyrstu ræðum, sem hann hélt sem ráðh., talaði um, að við yrðum að fara að herða að okkur og minnka við okkur innflutning o.s.frv. Þetta er kannske rétt. En það er ekki rétt af íslenzkum ráðh. að flagga með það í opinberum þingræðum, þegar farið er að verða vart við, að okkar erlendu viðskiptendur hafa fullan hug á því að sjá fyrir þeim hlutum. Það er ekki heppilegt, að okkar ráðh. sé að vísa þeim leiðina. Þeir finna hana fyrir því.

Ég er samþykkur því, að nauðsynlegustu vörur eiga að ganga fyrir um flutninga, en það afsakar ekki hindranir viðskiptaráðs í því, að menn fái að festa kaup á vörum, sem ekki eru kannske A, 1 í fyrsta flokki nauðsynjavara eða það allra nauðsynlegasta af öllu, heldur t.d. í 2. flokki, eins og mér virtist hæstv. ráðh. vilja hafa þær vörur, sem ég minntist á, fyrir utan timbrið, sem ég þykist vita, að hann viðurkenni, að sé bráðnauðsynleg vara. Ef hæstv. viðskmrh. telur þetta verið hafa eldhúsumr., þá skal ég segja honum það, að ég tel þennan vettvang, sem þm. hafa hér á Alþ., þann eina, sem þeim stendur opinn til þess að benda ríkisstj., hverjir sem hana skipa í það og það skiptið, á þá ágalla, sem við teljum vera á framkvæmdum ríkisvaldsins. Ef við gerum það samvizkusamlega og án stóryrða, þá erum við ekki að gera annað en skyldu okkar, og það jafnvel þó að við höfum ekki rétt fyrir okkur í öllum atriðum, ef við vitum ekki betur en að við höfum rétt fyrir okkur. Það er hinna vitrari manna að leiðrétta það, sem missagt kann að vera. Þess vegna hef ég fram borið þessar aths. mínar við hæstv. ríkisstj., vitandi það, að það er þörf á að vekja athygli á því, er ég hef tekið fram, til þess, ef verða mætti, að síðari villan í innflutningshöftunum verði ekki verri en hin fyrri.