21.01.1943
Neðri deild: 39. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (1360)

48. mál, hafnargerð á Hornafirði

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Sjútvn. hefur haft þetta frv. til meðferðar, sem er um breyt. á l. um hafnargerð á Hornafirði. Það, sem í frv. felst, er að auka nokkuð framlag ríkissjóðs til hafnargerðar á þessum stað og þá sömuleiðis ábyrgðarheimild núgildandi hafnarl. þar um. Er það vegna hins breytta verðlags, að ástæða er til, að þessar upphæðir verði nokkuð hækkaðar, og er gert ráð fyrir því, að þarna verði gert eitthvað til þess að bæta hafnaraðstöðuna frá því, sem verið hefur.

Sjútvn. hefur sent vitamálastjóra frv. til umsagnar, og er umsögn hans prentuð í nál. á þskj. 236. Vitamálastjóri gerir þar grein fyrir því, að nokkur athugun hafi fram farið á möguleikunum, sem fyrir hendi eru til hafnarbóta á Hornafirði, og sé þeirri athugun að vísu ekki fyllilega lokið. Hann segir, að til greina komi þrjár leiðir, og þó aðallega tvær, til hafnarbóta. En vitamálastjóri mælir eindregið með því, að þetta frv. verði samþ., og telur, að upphæðir þær, sem nefndar eru í frv., muni vera við hæfi, eða sízt of háar. Sjútvn. hefur að þessu athuguðu orðið sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt.