09.04.1943
Efri deild: 93. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1385 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Dómsmrh. (Einar Arnórsson):

Herra forseti. — Ég get svarað hv. fyrirspyrjanda (BBen) því, að Halldór Kiljan Laxness hefur fengið leyfi til að gefa út Njálu; það er alveg satt. En um þetta mál eru, eins og kunnugt er, mjög skiptar skoðanir; um það sem nr. 1. hvort ríkið eigi að hafa einkarétt á útgáfu þessara rita, nr. 2. hvort eigi að binda sig við ákveðna stafsetningu, og nr. 3, hvort það eigi að vera hegningarvert að fella úr sögunum eða breyta orðalagi á þeim. Um þriðja atriðið skal ég segja það, að ég tel ekki rétt að fella úr ritum þessum eða breyta orðalagi á þeim, fremur en á hverju öðru, sem ritað er. Hitt er annað mál, hvort slíkt er refsivert. Og ég get vel skilið það út af fyrir sig, að mönnum líki ekki hin nýja útgáfa Laxdælu. En það á að dæmast af almenningsálitinu og fræðimönnum. Og ég tel ekki gerlegt að leggja bann á einhvern mann, þó að hann hafi að dómi ýmissa manna gefið eitthvert rit illa út. Það var t.d. á einum tíma talið af flestum fræðimönnum, að Oxfordútgáfa Guðbrands Vigfússonar af Sturlungu 1878 hefði verið stórgölluð. Ekki hefði ég þó fyrir það treyst mér til að leggja bann á Guðbrand Vigfússon um það, að hann mætti ekki gefa út fornrit. Þórður biskup Þorláksson ætlaði einu sinni að endurbæta passíusálma. Hallgríms Péturssonar, eins og kunnugt er. Hann fékk nægilegan dóm á það verk af almenningsálitinu, svo að hann reyndi slíkt ekki aftur. Ég held, að almenningsálitið sé öruggasti dómstóll í þessum efnum. Ég veit persónulega, að þessi nafngreindi maður ætlar sér ekki að breyta Njálu eða fella úr henni.

Svo er hitt þriðja atriðið um stafsetninguna. Eins og kunnugt er, eru ákaflega skiptar skoðanir einmitt um þetta atriði. Og þessi samræmda stafsetning er, eftir því sem fræðimenn segja mér, bara tilbúin stafsetning, á sama hátt og ríkisstj. hefur t.d. á hverjum tíma sagt fyrir um það, að þessari og þessari stafsetningu ætti að fylgja á skjölum ríkisins, sem opinberir embættismenn skrifa, og af þeim mönnum, sem hljóta styrk ríkissjóðs til bókmenntastarfa. Ég veit nú ekki, hvor stafsetningin er betri. Ég hygg, að báðar séu viðunandi. En sú nýrri hefur það til síns ágætis, að hún er aðgengilegri fyrir fólk, sem er vant að lesa íslenzkt mál. Mér skilst, að yfirleitt sé ekki bókmenntagildi eins rits haggað eða breytt með stafsetningunni út af fyrir sig, ef það er orðrétt prentað upp. Mér skilst, að það skipti ekki máli um bókmenntagildið, — það getur verið, að það sé ekki rétt athugað, en ég hef skilið þetta svo, — að öðru leyti en því, að ljóðamálið verður alveg að haldast óbreytt með þeirri stafsetningu, sem höfundurinn hefur skrifað á, vegna kveðandinnar.

Ég man nú ekki, hvort þessi ummæli hv. þd. voru komin til, sem hv. fyrirspyrjandi talaði um, þegar ég veitti þetta leyfi. Ég hygg þó, að hv. d. hafi þá ekki lokið því mikla máli hér um frv. það, sem hv. 7. landsk. (KA) flutti. Það var rætt hér ákaflega lengi. Ég held, að það mál hafi ekki verið komið hér fram þá. Hins vegar skal ég ekkert segja um það, hvort það hefði skipt nokkru máli í sambandi við þetta leyfi.

Annars vil ég ekki þreyta hv. þd. á umr. um þetta hér utan dagskrár. Ég sé, að hún hefur mörg mál á dagskrá, sem fyrir liggur að ræða.