09.04.1943
Efri deild: 93. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1386 í B-deild Alþingistíðinda. (141)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Bjarni Benediktsson:

Eins og hæstv. ráðh. veit, hefur það verið tekið upp á þessum síðari árum, og er ekki nema gott um það að segja, að hv. þm. hafa spurt hæstv. ríkisstj. utan dagskrár um ýmis atriði, sem varða daglegar framkvæmdir hennar, og hefur það ekki þótt aðfinnsluvert sérstaklega a.m.k. ef um slík atriði hefur verið að ræða, er svör liggja glögglega fyrir um. Og svör liggja nú glögglega fyrir um það, að hæstv. dómsmrh. hefur veitt þessa undanþágu. Og það var einungis það, sem ég vildi fá staðfest.

Ég heyri, að hæstv. ráðh. er andvígur þeim l., sem Alþ. hefur sett um þetta efni, og hefur skilið hlutverk sitt þannig, að hann eigi að hjálpa til með að brjóta þau niður. Það er ekkert um það að segja. Og það er gott, að Alþingi veit, að hæstv. ráðh. hefur ekki séð ástæðu til að bíða eftir yfirlýsingu þessarar d., heldur veitt umrætt leyfi, að mér skilst, á meðan umr. stóðu yfir um þetta mál hér í hv. d., og hefði þó verið ástæða til þess fyrir hann að heyra undirtektir d. um þetta. Og þessi hæstv. ráðh. hefur ekki heldur séð ástæðu til þess að fá úr því skorið, hvort hann væri með því að gefa beinum lögbrjót þetta leyfi. En ég tel, að við sem lögfræðingar teljum það skipta nokkru máli. Nú býst ég við, að hæstv. dómsmrh. telji, að þessi l. standist ekki samkv. ákvæðum stjskr. En þá er það hæstaréttar að skera úr um það. En mér skilst, að það geti ekki verið hlutverk dómsmrh. að styðja að því að brjóta niður l. og tilgang þeirra, meðan þau eru í gildi. En það er ljóst, að það er til þess að brjóta þessi l. niður að gefa manni, sem hefur gefið rit út þannig, að fræðimenn telja, að brjóti stórlega gegn efni og gegn máli á því, eins og það upphaflega er, leyfi til að halda áfram þeirri útgáfustarfsemi sinni, — manni, sem þar að auki hefur brotið lög í þessu efni. Með því móti er sýnilegt, að viðleitni þingsins — hvort sem hún er hyggileg eða heimskuleg — til þess að reyna að hafa hönd í bagga um þetta er þýðingarlaus. Ég átti, satt að segja, þess sízt von af jafnágætum manni sem hæstv. dómsmrh. er, að hann væri svona ákafur fylgismaður þeirrar niðurrifsstefnu, sem hér er um að ræða, að hann beitti valdi sínu á þennan veg.