08.02.1943
Efri deild: 50. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í B-deild Alþingistíðinda. (1411)

7. mál, vatnasvæði Þverár og Markarfljóts

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Þetta frv. er komið frá hv. Nd. Var það flutt þar af hv. þingmönnum Rang. Efni frv. var í fyrstunni það að losa Rangárvallasýslu við allan kostnað af fyrirhleðslu Þverár og Markarfljóts og þeim mannvirkjum, sem standa í sambandi við það, og einnig við kostnað af viðhaldi þeirra mannvirkja. En þessar framkvæmdir á vatnasvæðinu fyrir austan eru raunar tvenns konar. Annars vegar eru framkvæmdir, sem má segja, að séu gerðar vegna samgöngubóta, a.m.k. meðfram, til þess að forða því, að vötnin eyðileggi vegi og til þess að gagn verði að brúm, sem ríkið hefur gert þar, þó að nærliggjandi sveitir hafi að öðru leyti mikið gagn af þessum mannvirkjum. Og í núgildandi l. er ætlazt til þess, að sýslan greiði 1/8 hluta af kostnaði við framkvæmdir þeirra mannvirkja og tilsvarandi hluta af viðhaldi þeirra. Í öðru lagi eru framkvæmdir í sambandi við þessi mannvirki, sem segja má, að ekki hafi eins almenna þýðingu. Það eru flóðgáttir og garðar til varnar landinu, til þess að varna eyðileggingu á sveitinni. Þar hefur sýslunni verið gert að greiða 1/4 hluta kostnaðar, bæði stofnkostnaðar og viðhalds.

Fjhn. Nd. fékk þetta mál til meðferðar og sendi vegamálastjóra til umsagnar, en hann sendi n. aftur ýtarlega grg., prentaða á tveimur fylgiskjölum á þskj. 156. Samkvæmt því, sem hann segir í þessari grg., hefur kostnaður við fyrirhleðslur þessar ver ið greiddur þannig:

Ríkissjóður .............. kr. 387156.58

Rangárvallasýsla ........– 13872.34

Samtals kr. 401028.92

Það verður ekki sagt, að enn hafi þungur baggi verið lagður á sýsluna með mannvirkjum þessum.

Þegar áætlun var gerð um þessi mannvirki, sem var um 1930, var búizt við, að þau mundu kosta tæpa hálfa milljón. En nú hefur allt verðlag hækkað stórlega, svo að eftir núverandi áætlun vegamálastjóra munu mannvirkin kosta um 2 milljónir. Hlutur sýslunnar yrði þá 175 þús. kr. að l. óbreyttum. Tilt;angur þm. Rang. var sá með þessu frv. að losa sýsluna við þessa upphæð. Vegamálastjóri gat ekki fyrir sitt leyti fallizt á frv. eins og það var upphaflega flutt af þingmönnum sýslunnar. Hann lagði aftur á móti til, að ríkis greiddi allan kostnaðinn við aðalmannvirkin, sem hafa almenna þýðingu, svo sem um samgöngur, en af þeim greiddi sýslan áður 1/8 hluta.

Hins vegar vildi hann ekki losa sýsluna við sinn hluta af kostnaði hinna staðbundnu mannvirkja, svo sem af flóðgáttum og varnargörðum gegn landskemmdum, en það er 1/4 af kostnaðinum. Taldi hann, að með þessu móti væri veitt hlutfallslega jafnmikið til þessara mannvirkja af ríkisfé og veitt er til álíka mannvirkja annars staðar. Fjhn. Nd. féllst að öllu leyti á tillögur hans og breytti frv. í samræmi við þær. Og ég skal geta þess, að flm. þess féllust á þessar breyt. Frv. var þannig samþ. í Nd. að öðru leyti en því, að samþ. var ein brtt. við 1. gr. 3. lið.

Fjhn. þessarar hv. d. hefur nú athugað frv. þetta og öll málsgögn, og hún vill mæla með, að það verði samþ. óbreytt. Með frv. þessu, eins og það er, eru sýslunni veitt mikil hlunnindi, þar sem hún er með því losuð við alla kostnaðarþátttöku í stærstu mannvirkjunum. Ég býst við, að fá héruð fái önnur eins hlunnindi til sinna nauðsynjamála, þar sem eru þessar stórkostlegu framkvæmdir. En n. telur þó, að það sé vel gerlegt að samþ. frv. eins og það kom frá Nd. En það hefði verið alveg ógerlegt að samþ. það eins og það var fyrst fram borið, því að með því móti hefði þetta hérað fengið sérréttindi fram yfir öll önnur héruð, sem ekki hefði verið ástæða til að veita, enda hefði það dregið dilk á eftir sér. Sannast að segja voru lítil rök færð fyrir því í grg. frv. af flm., að ríkið ætti að greiða allan kostnaðinn. Það var það helzta, að bent var á, að þarna væru svo sögufrægir staðir. En auðvitað eru þeir svo víða til, og eitthvert samræmi verður að vera í gerðum Alþ., og það þarf að reyna að gera öllum sem jafnast undir höfði, bæði sveitum og einstaklingum.