28.01.1943
Neðri deild: 44. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í B-deild Alþingistíðinda. (1430)

55. mál, eignarnámsheimild á Höfn í Siglufirði

Frsm. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. —Allshn. hefur breytt þessu frv. allmikið, og vill hún nema burt úr því heimildina um 4 jarðir af 5, sem þar eru til teknar. Þetta er byggt á þeim upplýsingum, sem hún hefur fengið frá bæjarstjóra Siglufjarðar, Óla Hertervig, að ekki hafi núna á næstliðnum árum verið gerðar neinar alvarlegar tilraunir til að kaupa þær jarðir með frjálsum samningum, og taldi n. ekki rétt að fallast á eignarnám, fyrr en það hefði verið gert. Hins vegar er jörðin Höfn, sem bænum ríður mest á að fá og hefur margsinnis reynt að fá keypta, án þess að það hafi tekizt með neinu því verði, sem skaplegt væri. N. er sammála um að leggja til, að heimildin um þá jörð nái fram að ganga, og mælir með frv. með brtt. á þskj. 235.