11.01.1943
Efri deild: 28. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í B-deild Alþingistíðinda. (1455)

12. mál, orlof

Gísli Jónsson:

Herra torseti. — Ég vil leyfa mér að minna hv. d. og hv. flm. á það, að sterkustu rökin fyrir því, að atvinnurekendur taki á sig þessar byrðar, eru þau, að það sé nauðsynlegt fyrir orlofsþiggjanda að fá hvíld. Og á þeim rökum hefur verið fallizt á, að atvinnureksturinn taki á sig þessar byrðar, um 4% hækkun á vinnulaunum til vinnuþiggjanda, í hvaða atvinnugrein sem er. Það hefði aldrei náðst samkomulag um þetta, hefði undirstaðan verið kauphækkunarkrafa. Þetta vil ég sérstaklega biðja hv. flm. að athuga. Með því að láta 16. gr. frv. standa óbreytta eru engar líkur til þess, að fólkið taki þetta sem hvíld, heldur eru miklu meiri líkur til þess, að þetta verði notað sem auknar tekjur. Einmitt með þetta fyrir augum hef ég lagt til við n., að 1. gr. verði breytt þannig, að einnig þeir menn, sem starfa við útgerð og taka laun sín í hlut, fengju einnig aðstöðu til þess að njóta sömu hvíldar. Þetta hefur ekki verið tekið til greina, og mun ég ekki gera það út af fyrir sig að ágreiningsatriði um fylgi við frv. Ég vildi mælast til þess við hæstv. forseta, að hann vildi fresta afgreiðslu málsins vegna þessarar brtt., og hún fengi einnig að ganga til n. á ný til athugunar. Ég vildi sem sagt mælast til þess, að þetta yrði annað hvort fellt úr gr. eða það tryggt, að hér sé aðeins gefið orlof til hvíldar, en ekki til þess að menn geti unnið annars staðar fyrir launum. Ég get ekki fallizt á rök hv. þm. Str., og það sjá allir, í hvert óefni væri stefnt, ef verkamaður við sjávarútveginn getur farið í sveitavinnu, og sjómaður, sem þrælað hefur 11 mánuði ársins í mismunandi veðri, getur allt í einu farið í hafnarvinnu. Þá væri ekki stefnt að því, sem ætlazt er til. Ég get því ekki lýst fylgi mínu við frv. nema með þessari breyt. Ég er þess hins vegar fullviss, að þessi hvíldartími, sem gert er ráð fyrir, borgar sig vel fyrir atvinnurekendur, og kemur það fram í betri vinnuafköstum að hvíldartíma loknum, sé orlof tekið sem hvíldartími. En þetta verður ekki, ef 16. gr. fær að standa óbreytt. Viðvíkjandi því sem hv. þm. Str. sagði um sínar viðbótartill. þá vil ég segja það, að mér þykir vænt um, að hv. þm. hefur nú fundið leið til þess að samrýma það frv. í heild. Það er engu minni nauðsyn á því, að þessum stéttum, sem um getur í viðbótartill., sé tryggð hvíld heldur en öðrum stéttum þjóðfélagsins. Ég vænti þess, að verði 16. gr. breytt, geti orðið fullkomið samkomulag um málið í d: