10.04.1943
Neðri deild: 95. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1395 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

Þingfréttaflutningur í útvarpi

Forseti (JJós):

Út af aths. og fyrirspurn hv. þm. N.-Ísf. vil ég taka þetta fram. Þetta umrædda frv. er ekki lagt fram í þessari hv. deild, og það er ekki venja, að þingfréttamaður útvarpsins beri sig daglega saman við forseta um það, hvað hann birtir sem þingfréttir í útvarpinu. Það er ekki nema um einstök eftirtektarverð atriði og greinargerðir, sem ekki þykir þægilegt að birta, sem hann leitar álits forseta. Hins vegar verður að telja það illa farið, að minnzt hefur verið á þetta mál í útvarpinu. Um þetta hefur verið rætt og séð svo um, að ekki verði minnzt aftur á þetta mál í útvarpinu. Fleira hef ég ekki um þetta að segja.