11.01.1943
Efri deild: 28. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í B-deild Alþingistíðinda. (1460)

12. mál, orlof

Gísli Jónsson:

Ég vona, að hv. þm. Str. hafi tekið eftir því í ræðu minni, að ég óskaði eftir því, að annað hvort yrði brtt. mín samþ. eða séð fyrir því á einhvern hátt, að þetta yrði ekki eingöngu kauphækkun, heldur fyrst og fremst hvíldartími fyrir þá, sem eiga að njóta þessara hlunninda.

En tilgangi mínum er náð, ef séð verður fyrir því á einhvern hátt, að orlofið verði notað sem hvíldartími fyrst og fremst.

Hv. þm. Str. upplýsti það, að þessum tilgangi mundi verða náð með reglugerð, þó að þetta yrði ekki fyllilega skilgreint í 16. gr. Ég get því að mestu leyti fallið frá minni brtt. að svo stöddu.

Ég vil svo að síðustu segja það, að ég sé ekki ástæðu til þess, að þessu frv. sé, hraðað svo, að ekki gefist tími til þess að taka til athugunar ný atriði, sem komið hafa fram. Ég vil því enn leggja til, að umr. verði frestað, þar til málið getur komið fram í heild og kemur aftur frá n.