18.01.1943
Efri deild: 35. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 921 í B-deild Alþingistíðinda. (1473)

12. mál, orlof

Bernharð Stefánsson:

Ég hjó eftir því í ræðu hv. þm. Barð., að hann sagðist mundu vera fús til að taka aftur brtt. á þskj. 142, ef till. n. um sama efni yrði samþ. Ég hef athugað dagskrána, og sé ekki, að brtt. hv. þm. Barð. liggi fyrir til atkvgr. Þykir mér það miður, því að ég hefði samþ. hana algerlega eins og hún er. Ég sé ekki, að ástæða sé til að setja lög um orlof, ef þau eiga að geta orðið til fjárgróða þeim, sem þeirra njóta, í stað þess að verða þeim til hressingar og hvíldar, eins og tilgangur þeirra er. Ég skal játa, að till. hv. n. bæta nokkuð um, ef þeim verður framfylgt. Að mínu áliti ætti að banna mönnum að vinna í skyldri starfsgrein í orlofi sínu. Ég skal játa, að skrifstofumenn hér í Rvík mundu ekki hafa neitt illt af því að fara í heyskap í orlofi sínu, en þeir mundu ekki vinna fyrir meira en mat sínum, og mætti gjarnan banna þeim að taka kaup. Ég hefði viljað, að till. hv. þm. Barð. yrði borin upp fyrr en till. hv. þm. Str. Þótt ekki virðist beint samband milli þeirra; set ég þær þó í samband.

Ég skal játa, að mér þykir þetta mál dálitið kyndugt. Ég og mínir jafnaldrar erum aldir upp við það að þurfa að vinna 12–14 tíma á sólarhring og fá aldrei orlof, og held ég, að við höfum sloppið óskemmdir frá því. En nú er kominn 8 klukkustunda vinnudagur og hálfs mánaðar frí að auki. Það er allt annað að lifa nú en þegar ég var ungur. Þetta eru kröfur tímans. En ég ætla samt að fylgja þessu frv., þó því aðeins, að brtt. hv. þm. Str. verði samþ. Það er ekki nokkur vafi á því, að það fólk, sem þreyttast er hér á landi, er sveitafólkið, sérstaklega húsfreyjurnar. Því var borið við, að brtt. hv. þm. Str. ætti ekki við í þessu frv., og heitið góðu um fjárveitingu í fjárlögum í þessu skyni.

Ég vildi gjarnan spyrja þá, sem hreyfa andmælum: hvers vegna ekki að leggja þessar kvaðir á ríkissjóð? Hann er stærsti atvinnuveitandinn í landinu, fram hjá því verður ekki komizt. Og hvers vegna ekki að leggja þessar kvaðir á ríkið sem atvinnurekanda, eins og kvaðir eru lagðar á atvinnuvegina samkv. þessu frv.?

Viðbárur þær, sem fram hafa komið gegn því, að samþ. megi brtt. hv. þm. Str., eru, held ég, einhver stjórnspeki, sem ég hef aldrei lært. Og mér finnst alveg sérstök ástæða til þess einmitt að samþ. brtt. hv. þm. Str. sökum þess, sem hann lítillega nefndi, að það er enginn vafi á því, að því meiri sem frí bæjarfólksins verða, því minni hvíldir verða fyrir húsfreyjurnar í sveitunum, vegna þess að bæjarfólkið er úti um sveitir í sínum fríum, bæði um helgar og í sumarfríum, og vitanlega leitar það mikið til sveitaheimilanna um alls konar greiða, sem það þarfnast.

Ég ætla ekki að orðlengja um þetta frekar. Ég er ekki vanur að blanda mér í mál, sem mér koma ekki alveg sérstaklega við hér í hv. d. Og erindi mitt að standa á fætur var aðallega að minnast á brtt. hv. þm. Barð. og þar með að lýsa yfir því, sem ég tók fram, að fylgi mitt við frv. er algerlega undir því komið, hvort brtt. hv. þm. Str. verður samþ. eða ekki.