18.01.1943
Efri deild: 35. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í B-deild Alþingistíðinda. (1476)

12. mál, orlof

Frsm. (Guðmundur í. Guðmundsson):

Ég skal ekki tefja umr. mikið, en ég vil mótmæla ummælum, sem hv. þm. Str. hefur haft í seinustu ræðu sinni, sem mér virðist benda nokkuð til þess, að hann misskildi nokkuð þau grundvallarsjónarmið, sem hann byggir á. Hann talaði um, að með þessu frv. væri gert upp á milli stétta þjóðfélagsins, þannig að skilin væri eftir alveg sérstaklega ein stétt, sem ekki ætti rétt til að njóta orlofs, og væri það sveitafólkið. Þetta er misskilningur hjá hv. þm. Frv. byggist á því grundvallarsjónarmiði, að allir launþegar eigi rétt til orlofs, án tillits til þess, við hvaða störf er unnið. Og það eru einmitt þeir atvinnuvegir, sem unnið er við, sem eiga að bera uppi þessi orlof starfsmannanna. Hitt er svo annað mál, að frá þessum hv. þm. hefur komið fram rödd um það, að landbúnaður sé sú atvinnugrein u þessu landi, sem ekki sé fær um að standa undir þessum orlofum, og þurfi þess vegna að styrkja þá, sem landbúnað stunda, sérstaklega til orlofa. Ég fyrir mitt leyti get gengið inn á það með þessum hv. þm., að þessi atvinnugrein sé alveg sérstaklega styrkt, til þess að þeir, sem hana stunda, geti fengið tækifæri til þess að njóta þess að geta haft sumarfrí. En ég geri náttúrlega ráð fyrir því, að í kjölfar slíkrar ályktunar muni koma sú krafa á eftir að stéttarfélög í kaupstöðum muni jafnvel vilja fá einhvern styrk úr ríkissjóði líka, til þess að meðlimir þeirra geti hagnýtt sér orlofin sem bezt.

Ég fæ ekki séð, að það sé rétt, sem hv. þm. Str. tók fram áðan, að það sé fullkomið samræmi í því að taka hér upp í þetta frv. þá brtt., sem hann hefur borið fram hér á þskj. 193, því að frv. gerir hvergi ráð fyrir því, að neinir styrkir séu veittir úr ríkissjóði til orlofa, en fram á það fer hans brtt. Og það væri því algert ósamræmi að þessu leyti, ef hún væri samþ. og tekin upp í frv.

Hv. þm. Str. sagði áðan, að hlutarsjómenn samkv. b-lið 1. gr. frv. væru atvinnurekendur og að þeim sé ætlaður nokkur styrkur til orlofa, þó að atvinnurekendur væru. Ég vil algerlega mótmæla þessari fullyrðingu hv. þm. Því fer mjög fjarri, að hlutarsjómenn geti talizt atvinnurekendur. Þeir hafa hvorki aðstöðu vegna þeirrar atvinnu sinnar né atvinnurekendaumráð yfir afla eða skipum eða öðru slíku. Og í l., sem varða hlutarsjómenn, eru þeir settir sem launþegar, en alls ekki sem atvinnurekendur, t.d. í l. um að greiða tryggingar fyrir hlutarsjómenn, svo og ákvæðum l. um þeirra hlutaruppbót, ef þeir verða frá verki sökum veikinda. Í báðum þessum ákvæðum eru hlutarsjómenn settir eins og launþegar, en á engan hátt eins og atvinnurekendur.

En ég get endurtekið það, að ég er fús til að taka saman höndum við hv. þm. Str. um það að flytja annaðhvort sérstakt frv. eða koma ákvæði inn í fjárl. um styrkveitingar til bænda, til þess að þeir geti haft fullt gagn af orlofunum. (HermJ: Venjulegar mótbárur). Og ég vil mjög taka undir það, sem hv. þm. Barð. sagði hér áðan, að í það sé gengið nú strax á þessu þingi að koma með frv. um þetta og fá það afgreitt það fljótt, að hægt sé að samþ. það áður en þessu þingi er lokið. (HermJ: Nei. við sættum okkur ekki við þetta). Og mér er alveg óskiljanlegt, að hv. þm. Str. og hans flokksmenn geti ekki sætt sig við þetta, þegar komin eru fram svona skilyrðislaus og ákveðin boð frá hv. þm. Barð. og mér, sem ég veit, að fleiri munu á bak við standa.