18.01.1943
Efri deild: 35. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 928 í B-deild Alþingistíðinda. (1481)

12. mál, orlof

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Hv. 1. þm. S.-M. (lngP) efaðist um, að hugur fylgdi máli hjá mér og öðrum um þetta mál. Út af því vil ég lýsa yfir því, ef hann ber fram till. um það og það þykir þinglegt, að þessu máli sé frestað, þangað til hitt málið, væntanlegt frv. um kynnisferðir sveitafólks, er komið á sama stig um afgreiðslu og þetta mál nú er, þá mun ég vera með þeirri tilhögun, þannig að forseti taki þetta mál af dagskrá, þangað til hitt málið er komið á sama stig. Og ég vil leggja vinnu í það, hvenær sem er, til þess að þetta geti orðið.

Ég er hins vegar á móti brtt., sem fram er komin við brtt. hv. þm. Str. Ég hygg, að þetta mál þurfi að athugast betur og hugsast meira. Ég tel, að það þurfi að athuga þetta mál einnig í sambandi við þá menn, sem eiga heima í sveitum, en sækja vinnu til kaupstaðanna. Þegar útvegurinn gengur vel, sækja margir sveitabændur eða synir þeirra vinnu til sjávarins á sumum tímum árs, a.m.k. að vetrinum, og njóta þá sömu hlunninda og aðrir, sem stunda þar vinnu.

Ég sé ekki, að hv. flm. frv. geti verið á móti þeirri uppástungu, sem fram hefur komið frá hv. 1. þm. S.-M., þar sem líka búið er að binda þessi orlof með samningum. Og þó að frv. þetta yrði ekki samþ. á þessu þingi, þá nýtur verkalýðurinn jafnt þessara hlunninda, sem frv. er um, eftir þeim samningum, sem gerðir hafa verið um þetta.