20.01.1943
Efri deild: 37. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 935 í B-deild Alþingistíðinda. (1501)

12. mál, orlof

Páll Hermannsson:

Í sambandi við þau orð hv. 6. þm. Reykv., að framsóknarmaður hefði verið í n. þeirri, sem undirbjó frv., detta mér í hug fyrri hugleiðingar minar, er ég sá þetta frv., þar sem um er að ræða orlof til handa því fólki, sem vinnur hjá öðrum. Kostnaðarhlið málsins hefur auðsjáanlega ekki verið þeim, sem undirbjuggu það, neitt vandamál, því að þar er vísað á aðra til að bera kostnaðinn, sem sé vinnuveitendur. Þar með var aðalvandinn leystur. Nú datt mér það í hug, að fólk í sveitum hefði sízt við betri vinnukjör að búa en menn, sem í kaupstöðum búa, en að því er sveitirnar snertir, var ekki eins auðvelt að benda á þann, sem kostnaðinn skyldi bera. Þó hefur nú það undarlega gerzt, að menn hafa komið auga á þann, sem hægt væri að koma kostnaðinum á, sem sé ríkissjóð. En þegar búið er að finna þennan aðilann, sem örðugast var að finna, þá gerist það, að ekki finnst það form, er menn geta klætt málið í til þess að gera það að l. Einhver hv. þm. sagði í gær, að það væru undarleg vinnubrögð að geta ekki fylgt þessu frv. fram án þess að þurfa að tengja við það annað mál, orlof sveitafólks. Það má vera. En hitt eru ekki síður undarleg vinnubrögð, ef hv. þm. geta ekki komið sér saman um form, er þeir eru á annað borð orðnir sammála um sjálfan kjarna málsins. Ég trúi því ekki, fyrr en ég tek á, að hv. þingd. viðurkenni öll, að málið eigi rétt á sér, en láti það falla á því, að þeim reynist um megn að finna hið rétta form. Því fer fjarri, að ég vilji amast við því, að fólk í kaupstöðum fái orlof. Ég vil sérstaklega minna á, að fólkið í kaupstöðunum verður fyrir rás viðburðanna fremur aðnjótandi þeirra hlunninda, réttinda og þæginda, sem þjóðfélagið getur veitt, en sveitafólkið. Eins er það, að aðstaða fólks í sveitum til að hafa gagn af ýmsum menningarstofnunum, svo sem skólum, sjúkrahúsum, rafmagni og menningarlegum ráðstöfunum til hreinlætis, heilsubótar o.fl., er takmarkaðri en aðstaða þeirra, sem dvelja í kaupstöðunum. En þessa er engu síður þörf í strjálbýlinu, þó að ekki sé hægt að veita því þangað. Það má því varast að bæta við þann mismun, sem er á kjörum vinnandi fólks í sveitum og í kaupstöðum, með því að veita kaupstaðafólkinu enn meiri hlunnindi, en láta þau ekki ná til vinnandi fólks í sveitunum.

Þó að nú á síðastliðnum tveimur árum hafi verið meiri eftirspurn eftir vinnufólki en vinnu, bæði í sveitum og kaupstöðum, þá verðum við að muna, að þetta ástand er nýtt, og það mun breytast aftur. Verkafólk úti á landi hefur ekki átt við betri vinnukjör að búa en verkafólk í kaupstöðum, og það má varast að bæta á þann mismun. Áður en langt líður, getur viðhorfið verið orðið það breytt, að vinna verði af skornum skammti í kaupstöðum og borgum landsins. En þá þyrfti að vera búið að búa þannig um hnútana, að fólkið fengist til að fara í sveitirnar, af því að vinnukjörin væru þar ekki þeim mun lakari en í bæjunum. Og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að hv. d. komi ekki í almennilegt lagaform þeirri hugsjón, að sveitafólk eigi orlof sem annað fólk, fyrst hún viðurkennir, að sem mest jafnrétti eigi að vera um kjör verkafólks til sjávar og sveita.