25.01.1943
Neðri deild: 41. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (1508)

12. mál, orlof

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. —- Ég geri nú ráð fyrir, að þetta frv. fari til n. En ég vildi þó segja um það nakkur orð, áður en það fer til n. Ég hef kynnt mér nokkuð efni frv., en ekki getað sannfærzt um það, að það sé nauðsyn á að setja l. um það efni, sem frv. fjallar um. Ég viðurkenni þó fúslega, að því fólki, sem vinnur mikið að staðaldri, sé hollt og jafnvel nauðsynlegt að taka sér hvíld frá störfum með víssu millibili. Þar með er ekki sagt, að lagasetningar sé þörf um slíkt. Samkv. samningum og venjum, sem hafa skapazt hér á undanförnum árum, þá eru margir menn í þessu þjóðfélagi, sem fá slík frí eða orlof. Það mun þannig vera um marga opinbera starfsmenn og verzlunar- og skrifstofufólk yfirleitt og líklega flest það fólk, sem vinnur við iðnað. Sjómenn hafa einnig tryggt sér nokkurt frí með samningum. Og nokkur verkalýðsfélag hafa komið slíkum ákvæðum í samninga við vinnuveitendur. Ég tel ekki ástæðu til að ætla, að aðrir, sem eftir frv. eiga að njóta orlofs, geti ekki fengið þessi hlunnindi eða fríðindi án löggjafar.

Ef verkamenn yrðu spurðir um það, hverra aðgerða þeir teldu mesta þörf í atvinnumálum þjóðarinnar, býst ég við, að svar þeirra yrði á þá lund, að þeir teldu nú mest um vert að undirbúa þarfar verklegar framkvæmdir og gera yfirleitt allt, sem unnt er, sem gæti orðið til þess að tryggja heilbrigðan atvinnurekstur í landinu. Ef allir verkfærir menn gætu átt kost á nógri vinnu við nauðsynleg störf og borið úr býtum viðunandi tekjur fyrir vinnu sína, geta þeir vafalaust veitt sér frí og nauðsynlega hvíld frá daglegum störfum, án nokkurrar löggjafar um slíkt.

Það er mikil þörf á að taka til endurskoðunar fyrirkomulag á atvinnurekstri landsmanna, einkum stærri fyrirtækja. Hefur nokkuð verið rætt um það á þessu þingi í sambandi við þáltill., sem fram hefur verið borin, og þarf ég ekki hér að endurtaka það. Ég held, að til þess að tryggja heilbrigðan atvinnurekstur í landinu í framtíðinni þurfi að gera þá breyt., að í stað einstaklingsrekstrar hinna stærri fyrirtækja komi einhvers konar félagsrekstur verkafólks þess, sem við þessi fyrirtæki vinnur. Þegar svo væri komið, mundi kaupið verða eftir reglum, sem verkafólkið sjálft setti, og þá yrðu orlof ákveðin af fólkinu sjálfu með samþykktum þar um, án fyrirmæla um rétt þess og skyldur til þess að taka sér frí, eins og hér er lagt til, að sett séu í l. Það er skoðun mín, að samtök verkamanna og forvígismenn þeirra ættu að gera meira en þeir aðilar gera nú til þess að beina störfum sínum inn á þá braut að vinna að þessari fyrirkomulagsbreyt. í stað þess að miða aðgerðir sínar einkum við það að sækja verkafólkinu kaupgreiðslur og ýmiss konar fríðindi í hendur annarra manna.

Ég vil svo víkja nokkuð að efni þessa frv., sem hér liggur fyrir. Samkv. því er leyfilegt, eftir sem áður, að semja um meiri orlofsrétt heldur en ákveðinn er í frv., og að samningar um slíkt, er nú kunna að gilda, skuli gilda áfram. Hins vegar er ekki leyfilegt að gera samninga um minni orlofsréttindi heldur en þarna eru ákveðin. Þetta mun að vísu vera svona í nágrannalöndum okkar, þar sem sett hefur verið slík löggjöf. En ef það er ekki leyfilegt að gera samninga um minni orlofsrétt heldur en þarna er ákveðið í frv., þá sýnist samræmi í því, að ekki mætti heldur semja um hann meiri.

Þá er framkvæmdin á þessum l., sem mér virðist, að muni verða nokkuð erfið á ýmsan hátt. Til þess er ætlazt, að ríkið gefi út orlofsmerki og orlofsbækur, sem eiga að vera til sölu hjá öllum póstafgreiðslum, og menn eigi að fá eina slíka orlofsbók á ári. Kostnaður við orlofsbækur og orlofsmerki á að greiðast úr ríkissjóði. Síðan er þetta hugsað þannig, að þegar kaupgreiðandi afhendir starfsmanni orlofsmerki, þá á hann (kaupgreiðandinn) að festa merkin í orlofsbækurnar eftir nánari fyrirmælum í reglugerð um orlof, sem setja á, og skrifa eitthvað í bókina. Í reglugerð á að setja ákvæði um það, hvað þar eigi að skrifa. Í þessar bækur eiga vinnuveitendur einnig að rita vottorð um það, hvaða daga verkamaður skuli hafa til orlofs. Póstafgreiðslurnar í landinu eiga að greiða orlofsféð samkv. orlofsbókunum.

Mér dylst ekki, að mikill kostnaður yrði vegna þessara framkvæmda og mikil fyrirhöfn. Fyrirtæki, sem greiðir verkamönnum kaup, þarf að festa þessi merki í orlofsbækur og skrifa einhverjar yfirlýsingar. Fyrst þarf að reikna út, hvað orlofsféð nemur mikilli upphæð, og það kostar allmikla vinnu, því að reikna þarf út, hvað greitt hefði verið fyrir þann tíma, sem unninn er í eftirvinnu, eftir dagvinnutaxta. Og svo þarf að festa þessi merki inn í bækur. Hvaða ástæða er til þess að hafa framkvæmd þessa svona erfiða fyrir báða aðila? Er ekki skriffinnskan nóg í þessu landi nú þegar? Ef Alþ. telur rétt að setja l. um orlof, þá er vitanlega skylt að hafa þau I. þannig, að framkvæmdin verði sem fyrirhafnarminnst öllum, sem þar eiga hlut að máli. Og er þá nokkur ástæða til þess, að ríkið gerist milliliður um greiðslu orlofspeninga á þennan hátt? Ég get ekki séð, að það sé nauðsynlegt. Vinnuveitendar hafa nú á hendi afhendingu kaups beint til verkamanna, og er ekki undan því kvartað. Er þá ekki hægt að trúa þeim til þess að greiða orlofspeninga á sama hátt án þess að ríkisstofnanir séu látnar vera þar milliliðir? Á þann hátt væri miklu auðveldara að greiða þetta orlofsfé, að greiða það beint frá atvinnurekendum til verkamanna.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er upphaflega samið af meiri hl. milliþn., sem skipuð var til þess haustið 1941, og frv. var flutt, eins og sá nefndarmeirihluti gekk frá því, á Alþ. 1942. Á þskj. 245 frá fyrsta þinginu 1942 er að finna grg. þessa nefndarmeirihluta með frv. Hins vegar hefur Alþ. ekki átt þess kost að kynnast álíti minni hl. n., hafi það einhvern tíma verið gefið út; mér er ekki um það kunnugt. — Í grg. frá þessum nefndarmeirihluta eru birtar upplýsingar um þessi mál í nágrannalöndum okkar, og vil ég geta hér um nokkur atriði, sem þar er frá skýrt um þetta.

Þá er fyrst Danmörk. Það er sagt í þessari grg., að þar séu til l. um þetta efni frá 1938. Þar er ekki tekið tillit til vinnu, sem varir skemur en 6 daga, nema um hafnarverkamenn sé að ræða. Fólk, sem vinnur við landbúnað, öðlast þar fyrst rétt til orlofs með fullu kaupi, þegar það hefur unnið 25 vinnudaga samtals hjá sama vinnuveitanda.

Í Noregi eru ekki til sérstök l. um orlof, en í l. frá 1936 um vinnuvernd er u ákvæði um það efni. Þar eru siglingar, flugstarfsemi, landbúnaður í smærri stíl og opinber störf undanskilin ákvæðum laganna um orlof. Hafi maður unnið eitt ár samfleytt hjá sama vinnuveitanda, skal hann fá 9 daga orlof, og greiðist kaup fyrir þann tíma. Hafi hann unnið skemur en eitt ár, en þó lengur en 6 mánuði, á hann rétt til orlofs í hlutfalli við tímalengd. Fær hann þá 5 daga orlof fyrir 6 mánaða vinnu.

Í Svíþjóð eru til l. um orlof frá 1938. Vinnandi fólk þar, sem hefur haft á hendi stöðu sína 180 daga, á rétt til orlofs. Atvinna, sem ekki er aðalstarf viðkomanda, skapar ekki rétt til orlofs. Orlof reiknast þar einn dagur fyrir hvern almanaksmánuð, er viðkomandi hafði á hendi stöðu sína næsta almanaksár á undan. Nú er hirðing kvikfjár aðalstarf manns, og heimilast þá vinnuveitanda að greiða í stað orlofs upphæð samsvarandi þeirri, er hann hefði orðið að greiða orlofstímann.

Þá er að síðustu Finnland. L. gilda þar um orlof frá 1939. Þar skal orlof vera fyrir 6 mánaða starfstíma samfleytt 5 dagar, fyrir eins árs starfstíma samfleytt 9 dagar, og fyrir 5 ára starfstíma samfleytt 12 dagar. Verzlunar- og skrifstofufólk fær þar vil:u orlof, ef um er að ræða 6 mánaða samfleytt starf, og 2 vikur fyrir eins árs starf. Orlof veitist á tímabilinu frá 2. maí til 30. sept., nema um sé að ræða landbúnaðarverkafólk eða samkomulag sé um annað. Starfsmenn, sem ekki vinna samfleytt starf hjá sama vinnuveitanda, fá orlofsfé, sem nemur 20 daga kaupi fyrir 600 klst. vinnu — og svo orlofsfé fyrir fleiri vinnutíma. Samkv. þessu munu þeir, sem stunda lausavinnu, ekki fá orlofsfé fyrr en þeir hafa unnið a.m.k. 600 klst. hjá sama vinnuveitanda á einu ári.

Við þennan samanburð, sem byggður er á upplýsingum, sem birtar eru í áliti þessa nefndarmeirihluta, sem fram kom . á fyrsta Alþ. 1942, þá kemur í ljós, að það er ætlazt til þess, að orlofsréttindi séu meiri og víðtækari hér heldur en í nágrannalöndum okkar. Hér á þetta að vera svo yfirgripsmikið, skilst mér, að hver, sem hefur mann í vinnu, þó ekki sé nema einn dag eða part úr degi, þá verði hann að kaupa orlofsmerki og festa það í bók með þar til heyrandi skriftum.

Frv. þetta er komið frá hv. Ed. Þar var allmikið rætt í sambandi við þetta mál, á hvern hátt unnt væri að tryggja öðru fólki í landinu svipuð frí frá störfum. Margt fólk hér á landi, sem ekki mundi njóta hlunninda eftir þessum 1., ef frv. verður samþ., hefur þess engu minni þörf að fá frí frá sínum störfum. Svo er t.d. um fólk í sveit, sem ekki er í annarra þjónustu, það hefur svo miklum störfum að gegna, að það hefur ekki síður þörf þessa heldur en aðrir landsmenn, og er nú fram komið frv. í hv. Ed, um ráðstafanir til þess að létta undir með þessu fólki í þessu efni. Og það er eðlilegt, að slíkar till. komi fram í sambandi við þetta mál. Ég skal ekki að svo stöddu segja neitt um það, hvaða ráðstafanir nauðsynlegt er að gera í því efni, en vil segja, að verði lögfest álag á útborgað kaup, sem nemi 4%, eins og lagt er til í þessu frv., þá væri það að mínu áliti hliðstætt að ákveða með l. að leggja 4% ofan á útsöluverð landbúnaðarafurða á innlendum markaði, til þess að verja því fé sem orlofsfé handa því fólki, sem vinnur að framleiðslu á þeim vörum. Þetta teldi ég hliðstætt.

Ég vildi nú við 1. umr. málsins láta þessar aths. við frv. koma fram, áður en það fer til n.