25.01.1943
Neðri deild: 41. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 942 í B-deild Alþingistíðinda. (1510)

12. mál, orlof

Þóroddur Guðmundsson:

Herra forseti. — Ég skal nú ekki lengja þessar umr. mikið, aðeins vil ég víkja nokkrum orðum að ræðu hv. þm. V.-Húnv.

Hann talaði um það, að Alþ. ætti ekki að grípa hér inn í frjálsa samninga verkamanna og atvinnurekenda. Þetta er nú dálitið kynlega mælt, þar sem flokksmenn þessa þm. hafa gengið lengra í því en aðrir að taka samningsrétt af mönnum með lögum. Nú koma þessir menn hér fram og þykjast fylgjandi frjálsum samningsrétti. Það virðist hafa orðið mikil hugarfarsbreyting hjá þessum mönnum, síðan gerðardómslögin voru sett.

Það gleður mig, ef það er svo, að hv. þm. hefur séð að sér og iðrazt eftir því illa verki, sem þá var unnið, og hefur séð, að það er ekki starf Alþ. að grípa inn í þessi mál með harðsnúnum l. En því miður gaf ræða hans áðan ekki til kynna neitt afturhvarf, því að andinn í henni virtist sá, að hann sæi blóðugum augunum eftir því, að verkamenn fengju þann rétt sinn tryggðan, sem felst í þessu frv.

Hann talaði um, að það, sem verkamenn mundu helzt kjósa, ef þeir mættu ráða, væri atvinna öllu framar. Vissulega er það rétt, að það öryggisleysi, sem yfir verkarnönnum hefur vofað í þessu efni, er óþolandi. En að stilla þessu upp á móti því vinsæla máli, sem hér er á döfinni, er verkamönnum ábyggilega ekki í hag.

Þá þótti hv. þm. ósamræmis kenna í því, að í frv. er gert ráð fyrir, að semja megi um lengra orlof en 12 daga, en hins vegar ekki um styttra orlof. Þetta var þyrnir í augum hv. þm.

Hér er beint verið að halda fram sjónarmiði atvinnurekandans. Því ef semja mætti um styttra orlof, þá væri tilgangslaust að setja þessi l. Þau yrðu þá alveg gagnslaus. Það er vitanlegt, að frv. þetta, ef að l. verður, hefur í för með sér aukinn kostnað fyrir atvinnurekandann, og því er tilgangslaust að gera það úr garði með smugum til að smjúga út um í þessu efni. Með því móti er verið að eyðileggja það.

Þá talaði hv. þm. um þá fyrirferð og þá skriffinnsku, sem þetta fyrirkomulag hefði í för með sér. Það verð ég nú að segja, að broslegt er að heyra þá framsóknarmenn tala um skriffinnsku. En ég skal nú ekki fara nánar út í það. Vissulega færi bezt á því, að þetta yrði sem fyrirhafnarminnst í framkvæmdinni, og það væri mikill galli, ef svo væri ekki. En þessu er ekki til að dreifa, það er alls ekki rétt, að hér sé á ferðinni mikil skriffinnska eða aukafyrirhöfn. Þessi fullyrðing sannar aðeins það, að verið er að vinna á móti þessu nauðsynjamáli. Í sambandi við skriffinnskuna kastaði hv. þm. því fram, hvort ekki væri betra að greiða orlofsféð beint út. Oft yrði þá litið úr því, að orlofsféð væri greitt út, ef í hlut ættu ístöðulitlir verkamenn eða harðsnúnir atvinnurekendur, sem hefðu ráð verkamannanna í hendi sér. Þá þyrfti að gera sérstakar ráðstafanir til að tryggja, að ekki væri farið í kringum greiðsluna.

Ég vil vara við þessum sjónarmiðum.