19.01.1943
Neðri deild: 37. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (1533)

43. mál, búfjártryggingar

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. — Landbn. á hér tvær litlar brtt., og eru þær komnar fram í tilefni af þeim umr., sem hér urðu við 2. umr. málsins.

Fyrri brtt. er við 3. gr. a-lið. Í frv. er gert ráð fyrir, að þá eina gripi, sem njóta styrks af opinberu fé, sé skylt að tryggja í búfjártryggingadeildinni, en á binn bóginn er ætlazt til, að hér falli undir gripir, sem notaðir eru af félögum. Af þessu leiðir, að í ýmsum tilfellum falla hér undir gripir, sem að vísu hafa ekki hlotið þau verðlaun að eiga kröfu á að falla undir þetta, en koma þar undir sem kynbótagripir og geta staðið til bóta.

Enn fremur er lagt til, að ákvæði um hámarksaldur kynbótagripa sé fellt niður, en að ákvæði um aldur búfjár, sem tekið er í tryggingu, sé sett í reglugerð.

Loks er brtt. við 4. gr. Þar er lagt til, að tryggingar af slysum verði almennari en gert er ráð fyrir í frv. Þar eru tryggingarnar einskorðaðar við, að slysin séu af völdum illviðra og sjávarflæða. N. leit svo á við nánari athugun, að úr því að þetta væri tekið upp, væri ekki um annað að gera en að stíga skrefið til fulls og taka upp slysatryggingu, þannig að hún tæki til slysa almennt á búfénaði.

Þetta er svo einfalt mál, að ég held, að það skýri sig sjálft, og vænti, að hv. d. geti léð þessu samþykki sitt.