19.01.1943
Efri deild: 36. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í B-deild Alþingistíðinda. (1547)

115. mál, sveitarstjórnarlög

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Í frv. er farið fram á tvenns konar breyt. á launakjörum fyrir oddvita. Í fyrsta lagi, að greidd sé 1 kr. fyrir hvern mann í hreppnum, í stað 10 kr. fyrir tug manna. Þetta sýnist fljótt á litið vera sama. Þó hefur orðið ágreiningur út af þessu. Eru meðal annars dæmi þess, að oddviti reiknaði sér 10 kr. af 9 mönnum, sem voru fram yfir réttan tug í hreppi. Sýslunefnd samþ., að oddviti hefði ofreiknað sér þessa upphæð. Að sjálfsögðu skiptir þetta atriði ekki miklu máli, en mér finnst rétt hugsun að miða við tölu hreppsbúa, en ekki endilega við, að standi á heilum tug. Meginefni frv. er að lögfesta það, að hreppsnefndaroddvitar geti reiknað sér dýrtíðaruppbót á laun sín, eins og aðrir launþegar í landinu. Þetta er ekki í lögum nú, en að sjálfsögðu er hreppsn. heimilt að samþ. það og leggja undir samþykki viðkomandi sýslun. En það hefur ekki orðið þannig í framkvæmd. Sumir oddvitar reikna sér verðlagsuppbót, — viðkomandi hreppsn. hefur óskað eftir því og sýslun. samþ. En annars staðar hefur þetta ekki verið gert.

Fyrir nokkrum árum var oddvitastaðan þannig, að lita mátti á oddvitastörfin sem eins konar þegnskylduvinnu, greiðslan varla teljandi, og í mínu minni höfðu sumir oddvitar jafnvel enga þóknun fyrir störf sín. Reyndar voru oddvitastörf þá litil, og mátti oftast vinna þau í hjáverkum. En ég get alveg fullyrt það, að nú eru oddvitastörf orðin svo margbrotin, að það er ekki hægt að vinna þau algerlega í hjáverkum. Ég hygg, að ekki þurfi að vera stór hreppur, svo að oddvita sé með öllu ómögulegt að komast af án þess að taka vetrarmann, þó að búið sé ekki stærra en það, að hann annars gæti annazt það sjálfur.

Í hreppi, sem telur 250 manns, og þar sem lagt er á 5000 kr. útsvör samtals, eru laun oddvita þessi samkv. l. frá 1927, sem var breytt 1941: Föst laun 250 kr. og innheimtulaun samkv. l. tveggja ára gömlum 100 kr., samtals 350 kr.

Eftir því kaupgjaldi, sem nú er hér á landi, mun þetta vera svona vikukaup. Ég get fullyrt, að enginn hreppur er svo lítill, að ekki sé meira en vikuverk að inna af hendi oddvitastörfin. Sýnist engin meining, að oddvitar fái ekki dýrtíðaruppbót launa fyrir sin störf, eins og aðrir starfsmenn hins opinbera. Þó ekki hafi verið gengið frá þessu í lögum 1941, þá mun hafa verið gengið út frá því sem sjálfsögðu, að hrepparnir samþ. þetta sjálfir, eins og bæirnir hafa gert.

Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til allshn.