06.02.1943
Efri deild: 49. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í B-deild Alþingistíðinda. (1575)

75. mál, lögsagnarumdæmi Neskaupstaðar

Frsm. meiri hl. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. — Frv. þessu, sem er flutt af hv. 1. þm. S.–M. (IngP), var vísað til allshn., og aflaði hún sér upplýsinga um það. Frv. er flutt að tilhlutun bæjarstjórnar Neskaupstaðar. En þar sem þetta frv. varðaði hagsmuni Norðfjarðarhrepps, leitaði n. álits hans, og lagði hann eindregið á móti því, að frv. yrði samþ. Við athugun málsins sannfærðist samt meiri hl. n. um, að frv. væri á rökum reist, það væri eðlilegt, að þessi hluti Norðfjarðarhrepps yrði lagður undir Neskaupstað, sem hefur hans meiri þörf og getur betur notað sér hann heldur en hreppurinn.

Það stendur að verulegu leyti eins á um þetta mál eins og um stækkun lögsagnarumdæmis Rvíkur, og sömu meginrök koma til greina í báðum tilfellunum, þó að það merkilega hafi reyndar skeð, að hv. flm. þessa frv. hefur ekki treyst sér til að vera með því máli, sem í sömu stefnu og þetta fyrir Neskaupstað er flutt fyrir Rvíkurbæ. En meiri hl. n. vildi ekki taka afstöðu í þeim anda, sem þessi hv. þm. eða að dæmi hans, en leggur til, að frv. verði samþ.

Minni hl. n. hefur ekki enn skilað áliti, og veit ég ekki um hans afstöðu.