04.02.1943
Efri deild: 47. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 963 í B-deild Alþingistíðinda. (1600)

131. mál, útsvarsinnheimta 1943

Gísli Jónsson:

Ég vil benda hv. flm. á, að það var hann, en ekki ég, sem kom af stað umr. um fjármálastj. Rvíkurbæjar, og ef honum er það ógeðfellt eða viðkvæmt, að svo skyldi verða, þá er það ekki mín sök.

Úr því að hann fór að þykjast finna einhvern misskilning í ræðu minni, þá get ég bent honum á, að það er ekki rétt að kalla bæjar- eða sveitarfélög stríðsgróðamenn, eins og hv. flm. hlýtur að sjá. Það er ekki um að ræða menn í þessu sambandi, heldur er þá réttara að segja aðilar eða eitthvað þess háttar.

Með stríðsgróðaskattinum koma auknar tekjur í bæjarsjóðinn, sem stríðsgróðamennirnir gjalda í þennan sjóð, og á það skiljanlega að fara til þess að hlúa að þegnunum. En að þessi ráðstöfun, sem gera á með frv., ef að l. verður, sé á nokkurn hátt til bóta fyrir þegnana, gjaldendurna í þessum bæ og annars staðar, það er mér ómögulegt að sjá. Lækki dýrtíðin, eins og öðru hverju er verið að halda fram, að muni eiga sér stað, þá þarf bærinn ekki eins mikil gjöld í bæjarsjóðinn, og er þeim mun minni ástæða fyrir hv. flm. og aðra, sem hans máli fylgja, ef þeir gera ráð fyrir þessu, að krefjast þess, að útsvörin séu greidd, áður en þau eru lögð á.

Svo er verið að tala um, að hægt verði að endurgreiða, ef einhver borgi of mikið. En ég vil bara leyfa mér að efast um, að þetta verði gert. Að fara þá leið, sem flm. talaði um, mundi hafa í för með sér hækkun á útsvörum um 50%.

Ég efa ekki, að tekjur bæjarsjóðs hér í Rvík síðast liðið ár hafa verið helmingi hærri en gera má ráð fyrir þetta ár, eins og gjöldin hafa einnig verið meiri.

Ég sé ekki, að það hafi verið farið neitt frá því, sem réttlátt er í þeim reglum, sem gilt hafa um þetta.