04.02.1943
Efri deild: 47. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í B-deild Alþingistíðinda. (1601)

131. mál, útsvarsinnheimta 1943

Flm. (Bjarni Benediktsson):

Ég var sannfærður um, að hv. þm. vildi vera sanngjarn í þessu máli sem öðrum. Enda sýnir síðasta ræða hans, að hann vill með mótmælum sínum styðja málið, en ekki granda því. Ef hann í alvöru vildi málinu illa, þá mundi hann flytja hér fram rök, sem taka mætti í alvöru, en ekki halda því einu fram, sem er augljós gamansemi.

Hann heldur því t.d. fram, að hagur bæjar- og sveitarsjóða hafi stórum batnað við setningu laganna um stríðsgróðaskatt. En sannleikurinn er sá, að með þeim lögum voru tekjumöguleikar þessara sjóða af hátekjum stórlega skertir. Með þeim var bannað að leggja útsvar á tekjur yfir 200 þús. kr., og til bæjar- og sveitarsjóða renna einungis 45% af stríðsgróðaskattinum og er það miklu minna hlutfall en þeir hefðu fengið, ef áiagningarheimild væri frjáls.

Háttv. þm. er því bersýnilega að vera að gamni sínu, þegar hann talar um þessa löggjöf sem sérstök hlunnindi fyrir bæjar- og sveitarsjóðina. Öfugmæli háttv. þm. eru því ótvírætt til stuðnings frv.