08.02.1943
Efri deild: 50. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (1606)

131. mál, útsvarsinnheimta 1943

Gísli Jónsson:

Ég vil leyfa mér að gera nokkrar aths. við þetta mál. Mér hefði þótt eðlilegast, að frsm. hefði komið fram ógrímuklæddur í sinni ræðu. Annars hygg ég, að ekki þurfi fyrirskipun frá borgarstjóra til gjaldkera til að taka á móti greiðslum, ef gjaldendur hafa sterkan vilja til að greiða gjöld, áður en þau eru lögð á.

Ég vil spyrja hv. frsm., hvort hann telji viðkomandi aðilum mundi verða gert að greiða dráttar vexti af þessum hluta, ef þeir þverskallast við að greiða þennan hluta útsvarsins, þangað til útsvar yrði lagt á. Mér fyndist það vera eðlilegar upplýsingar í málinu. Ég vil heyra álit flm. um það, hvort hann telur, ef frv. verður samþ., sveitar- og bæjarstjórnum heimilt að taka þennan hluta útsvarsins lögtaki, strax þegar hann fellur, áður en útsvarið er lagt á.

Í öðru lagi vil ég spyrja um það, hvort flm. frv. vildi ekki samþ. það, að a.m.k. væri bætt í 3. gr. frv., að það, sem eftir þessu væri greitt umfram endanlegt útsvar, væri þá endurgreitt með sömu dráttarvöxtum, sem krafizt hefði verið af gjaldanda. Ef svo er, er sjálfsagt að fá það inn í 3. gr., því að mér finnst ótækt, að bæjar- og sveitarstjórnum sé gefin heimild til að leggja á dráttarvexti, 1% á mánuði, án þess að í nefndum tilfellum séu greiddir dráttarvextir til baka af þessum mismun. Ég mun gera till. um, að 2. gr. frv. falli niður og inn í 3. gr. verði bætt þessu ákvæði um dráttarvexti, því að verði ekkí sú breyting gerð, álit ég, að með þessum ákvæðum sé gengið svo mjög á rétt gjaldenda, að það nái ekki nokkurri átt.