08.02.1943
Efri deild: 50. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 970 í B-deild Alþingistíðinda. (1611)

131. mál, útsvarsinnheimta 1943

Gísli Jónsson:

Þetta mál er nú komið á nýja braut. Það er upplýst með ræðu hv. siðasta ræðumanns, að þetta mál er aðeins fyrir Rvíkurbæ. Og er þá bezt að breyta frv. í það form. Hann lýsti yfir því, að hér í Rvík — það var auðheyrt, að hv. þm. átti sérstaklega við það — hefði verið hægt að ná þessu marki, sem frv. stefnir að, með því að leggja þessi 50% á með aukaniðurjöfnun hér í þessum bæ. En mér dettur ekki í hug, að menn fari að samþykkja slíkt ákvæði fyrir alla staði á landinu aðeins af því, að þetta á að gilda fyrst og fremst fyrir Rvík. Það hefur ekki komið fram í þessum umr., að þessa fyrirkomulags, sem farið er fram á í frv., sé neins staðar annars staðar þörf en í Reykjavík.

Hins vegar vil ég mótmæla því, sem hv. flm. hélt fram, að það hefði verið hægt að ná þessum 50% með aukaniðurjöfnun á síðasta ári. Ef bærinn hefði ekki þurft að taka þessi 50% með aukaniðurjöfnun, þá hefði hann ekki tekið þau. Það hefði engum dottið í hug að bæta þessari 50% niðurjöfnun á þá menn, sem ef til vill yrðu ekki gjaldþegnar þar næsta ár. (BBen: Hv. þm. getur ekki miðað allt við þá gjaldendur, sem reyna að svíkjast undan opinberum gjöldum). Hv. flm. hefur í frv. miðað þetta við öll sveitarfélög, alla bæi og kaupstaði á landinu. En ef þetta frv. er fram komið eingöngu vegna þarfa Rvíkurbæjar, þá er bezt, að ekki sé farið með það í neina launkofa né því haldið fram, að þetta sé mest gert vegna hagsmuna gjaldþegnanna.

Í sambandi við þetta vil ég svo spyrja: Hve mikið er óinnheimt af gjöldum, sem fallin eru í gjalddaga hjá Rvíkurbæ? Það væri nær að ganga í að innheimta það, áður en farið er að lögbjóða á Alþ. að taka gjöld af mönnum, seni kannske ekki eiga að gjalda til þess bæjar, og taka þau þannig fyrirfram, áður en þau eru raunverulega á lögð. Hvað halda t.d. hv. þm. að Guðm. H. Þórðarson, sem nú er gjaldþrota, mundi þurfa að gjalda mikið eftir þessum l., ef frv. væri samþ.? Hér er ákaflega gengið á rétt gjaldþegnanna og svo langt, að það er alls ekki sæmandi fyrir Alþ. að niðast á þeim svo sem stefnt er að með þessu frv.