14.01.1943
Neðri deild: 32. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 986 í B-deild Alþingistíðinda. (1653)

4. mál, áfengislög

Pétur Ottesen:

Það er nú ekki orðinn eins mikill siður og áður var að vekja upp drauga í varnarskyni og til þess að koma mönnum og málefnum fyrir, með þeim formála, sem þar átti við. Jafnvel finnast þess dæmi, að draugar komu sunnan af Spáni, og kvæðisbrot kann ég um það eftir Grím Thomsen, „kaþólskir fjandar“ og þóttu hinir skæðustu. Sunnan af Spáni var einmitt sóttur sá draugur 1939, sem koma átti þessu máli fyrir, þegar það lá líkt fyrir og nú. Draugurinn er sá, að enn sé í gildi samningur okkar við Spánarstj., sem geri okkur ófært að samþ. það, sem meirihluti mun ella vera og hafa verið fyrir að samþ. Draugar eiga sér aldurtila. Aldrei fylgdu þeir ættum lengur en í níunda lið, og ég hygg, að þessi draugur fylgi ekki Íslendingum lengur, þótt af öðrum ástæðum sé en aldrinum. því var lýst í umr. af hv. 1. flm., hversu gersamlega er ástæðulaust fyrir andstæðinga frv. að nota sér þennan samning að skjóli. Hann var vitanlega fram kominn af því, að hér hafði verið sett á algert innflutningsbann á áfengi, en við afnám þess var burt fallinn grundvöllur viðkomandi skilyrða í samningnum. Við höfðum lengi haft bezta kjara samning á Spáni, áður en áfengisbannið var innleitt, og viðskiptin byggðust ekki á vinkaupum sérstaklega, sem kunnugt er. Nú hefur margt gerzt seinni árin, sem hefur upphafið samninga okkar við erlend ríki. Af stríðinu hefur leitt ekki óverulegra en það að sambandslagasáttmálinn við Dani féll úr gildi fyrir tímann, og var því lýst yfir af Íslendingum og á grundvelli þeirrar yfirlýsingar fluttum við æðstu stjórnina inn í landið. Mér þykir mjög miður, að hæstv. utanrh. (VÞ) skuli hafa látið þennan draug hræða sig, svo að hann skuli trúa, að ekki megi samþ. þetta frv. Treystir hann sér til að fullyrða, að við séum þess nú megnugir að standa við Spánarsamninginn að öðru leyti? Í samningnum stendur, sbr. stjórnartíðindi 1934, að „spænskum kaupsýslumönnum skal vera frjálst — að stunda atvinnu sína á Íslandi og vinna að útbreiðslu og sjá um sölu á vörum sínum.“ Hvað heldur ráðh., að hernaðaryfirvöldin, sem hér eru nú, mundu segja við umferð slíkra manna hér? Spánn telst að vísu hlutlaust ríki, en kunnugt er, hvernig sumir líta á það hlutleysi. Það yrði mjög erfitt í öðru atriði að standa við samninginn eða segja, að hann hafi verið haldinn. Þar segir m.a.: „Íslenzka stjórnin skuldbindur sig til þess, að er sett hefur verið á stofn í því landi einkasala á vininnflutningi, þá skuli sú stofnun kaupa á Spáni 80% af þeim borðvínum, anísþrúgubrennivínum og þess kyns drykkjum, sem hún flytur inn, og að 100% af þeim kjörvinum, sem það land kaupir — “. Ég skal eftirláta öðrum mér fróðari að telja upp „kjörvínin.“ En ég vil spyrja hæstv. utanrrh., hvort hann telji, að þessi ákvæði hafi verið uppfyllt. Svarið gæti orðið, að skýrslur skorti, en við vitum nokkurn veginn, að uppfyllt var það ekki, og síðan 1935 hefur tiltölulega lítið verið innflutt frá Spáni, oftast nær ekkert. Þar með er grundvöllur samningsins horfinn, og hvað er þá á samningnum að byggja? Með honum sýnist varla vera hægt að slá ryki í augu nokkurs manns, að veifa honum er vísvitandi einber fyrirsláttur. Um leið er á það að líta, að stjórn Spánar eftir borgarastyrjöldina taldi sig ekki bundna af neinum eldri samningum við önnur ríki, jafnvel ekki samninga um fjárgreiðslur. Hún telur því samninginn úr gildi fallinn, enda var sendur héðan diplomatiskur sendimaður til að reyna að ná við hana nýjum samningum í staðinn. Hér hefur verið lýst viðtökunum, sem hann fékk. Hann beið dvalarleyfis við landamærin, lá þar við lóðarhálsinn, fékk aldrei að koma í landið, hvað þá líta Spánarstj. augum. Við hana er því enginn samningur. Vitanlega er allt gott um það að segja, að nú sé verið að semja þar um fisksölu, en það hefur ekki komið fram í þessum umr., að Spánarstj. heimti nein sérstök fríðindi í sambandi við fisksölu á Spáni. Það er langt fyrir neðan virðingu Alþingis að gera nú nokkuð með þennan gamla draug.

Allt annað og miklu hreinlegra sjónarmið kom fram í ræðu hv. 10. landsk., og er hægt að taka afstöðu út frá því. Ég vil benda á að bæði hann og þeir, sem standa að rökst. dagskránni, ganga út frá því, að verði frv. samþ., muni svo mikill og almennur hugur fylgja máli, að landið verði von bráðar algerlega þurrkað með þessum héraðabönnum. Þeir óttast ekki fyrst og fremst frv., heldur viðurkenna með þessu, að þeir óttast þjóðarviljann, sem mun útrýma áfenginu. Vilja þeir þá standa gegn því, að þessi meiri hluti þjóðarinnar fái neytt sín? Það er alveg rétt, að þeir, sem óttast brottrekstur vínsins á þennan hátt, fara ekki villt um hug fólksins í málinu. Á mjög skömmum tíma söfnuðust 22 undirskriftir undir áskorun til Alþingis um að samþ. þessa lagabreyt., og hefðu getað orðið miklu fleiri, ef ástæða hefði þótt til. Á því er enginn vafi, að meiri hl. þjóðarinnar lítur ástandið öðrum augum en hv. síðasti ræðumaður. Það er óþarfi að vekja um þetta umr. Ástandið hefur oft verið vont, og enn er það ekki svo, að ekki geti vont versnað, það hefur e.t.v. aldrei verið verra, en kann að eiga alllangt í land til að ná hámarki, sem næst með sama áframhaldi. Annaðhvort er það ákaflega mikill og einkennilegur ókunnugleiki eða lítil tilfinning fyrir ástandinu, sem birtist í því, þegar menn tala eins og þetta sé nú allt í ágætu lagi. Þessi hv. þm. talaði um, að ekki væri sett stífla í allar flóðgáttir með héraðabönnum. Veitingaleyfi, sem stofnun ein hér í bænum hefði, mundi standa eftir sem klettur úr hafinu. Ekki veit ég, hvort þetta er eilífðarsamningur, sem ríkið hefur gert við hótelhaldara hér í námunda við þinghúsið. Ég veit ekki betur en vínveitingum hafi verið hætt þar, þegar vínsölurnar voru lokaðar, og víss er ég um, að hvorki ríkisstjórn né Alþingi lætur það við gangast, að einn brennivínssali á Íslandi geti haft í hendi sinni, hvernig þessum málum skuli hagað í landinu. Síðasti hv. ræðumaður vildi upplýsa málið fyrir þm., sem væru e.t.v. búnir að binda hendur sínar. Þessu var ekki beint til mín, en ég geri ráð fyrir, að í þessu máli greiði þm. atkv. eftir sannfæringu sinni og ekki öðru. Það er rétt, að þeir svari og taki við þessari sneið, sem hana áttu að fá frá þm. Hann gerði ráð fyrir, að menn hefðu hugsað sér að geta smeygt sér gegnum bakdyr og náð sér í flösku sjálfir þrátt fyrir héraðabann. Ef þetta hefði farið fram hjá mönnum, vildi ég benda á það, ef það á að vera önnur sneið til einhverra hér.

Málið liggur afarljóst fyrir. Ég greiði að sjálfsögðu atkv. móti dagskránni. Og ég álít, að þetta, sem sett var inn í frv., sé alveg óþarft, en þótt það standi, mun ég engu síður greiða atkv. með frv. eins og það er. Sú uppáfundning var alveg ástæðulaus.